Má sleppa sósunni?

22. mars 2024
Guðbjörg
Það er spennandi að skapa eitthvað nýtt. Þegar gera á vef, efni fyrir vef, smáforrit og tæknilausnir virðist að óteljandi atriðum að huga. Hvernig byrjum við?

Stundum liggur fyrir hugmynd um lokaafurðina, stundum er bara hugmyndin komin. Sennilega færum við mörg að hugsa um hvaða vefþjónustur sé hægt að nýta, hvað væri gott að stæði hvar, hvaða nýja hönnunarmöguleika væri hægt að kynna til leiks og hvernig myndir væri hægt að nota. Þetta hljómar eins og góð byrjun, ekki satt?

Rangt.

Áður en við hleypum sköpunargáfunni af stað eins og kálfum að vori þurfum við að nema staðar. Allt þetta þurfum við að afgreiða í ferlinu, en ekki strax. Það er freistandi að biðja um tillögu að nýrri lausn sem fyrst, hér á landi á jú allt að vinnast á methraða. En við þurfum að beita okkur sjálf aga og byrja á réttum stað, og það er á hugarfarinu. Við megum nefnilega ekki fara af stað og hanna og þróa hlutina eins og við viljum hafa þá.

Bráðaofnæmi og spariskór

En er ég eða mitt fyrirtæki ekki að gera vefinn? Það hlýtur að þýða að hann snúist um okkur?

Rangt.

Það sem er sett fram fjallar vissulega um þjónustuna en vefurinn, kerfið eða smáforritið á ekki að vinna út frá þörfum fyrirtækis eða stofnunar.

Við skulum ímynda okkur að þú sért að halda matarboð næstu helgi. Það er búið að senda út boðið, þú þarft bara að ákveða hvað verður eldað og velja vínið. Sem gestgjafi hugsar þú um hvort einhver sé með ofnæmi, hvort einhver gestanna sé vegan, hvort þau muni öll vilja áfenga drykki eða ekki. Auðvitað tekurðu tillit til þessara atriða, annað væri argasti dónaskapur. Þú reynir að velja eitthvað sem hefur ekki í för með sér ferð með sjúkrabíl upp á bráðamóttöku vegna bráðaofnæmis. Það er ekki verra ef maturinn er bragðgóður, og svo þarf hann helst að metta gestina. Það er vandræðalegt þegar matargestir þurfa að koma við á skyndibitastað á leiðinni heim. Er búið að moka innkeyrsluna? Gestirnir verða kannski í spariskónum.

Gordon Ramsey og gestirnir

Þú hefur skapað þér frægð í vinahópnum fyrir rauðvínssósuna þína. Hún er vinsæl og klikkar aldrei. Þú ert viss um að hún fengi Gordon Ramsey til að mala eins og kettling ef hann fengi tækifæri til að bragða á henni. Þig dauðlangar að bjóða upp á þessa sósu enda er hún þitt aðalsmerki. Það er bara einn hængur á, þú ætlar ekki að bjóða upp á kjöt heldur indverskt daal. Tveir gestanna borða nefnilega ekki kjöt.

Þetta er ákveðið högg.

Þú veist samt að hið rétta er að setja þig í annað sætið. Það skiptir mestu að skapa góðar minningar, að gestunum líði þannig að hugsað hafi verið um þau í undirbúningnum og að allir fari heim glaðir og saddir.

Það getur verið erfitt að sleppa bestu sósu í heimi en prófum það samt, við gætum komið sjálfum okkur á óvart. Það hefur lengi talist eftirsóknarvert að vera góður gestgjafi, verum það líka á vefnum.

Njótum þess að skapa lausnir sem eru skemmtilegar, flottar, hraðar og byltingarkenndar. Munum bara að byrja á réttum stað. Hugsum um hvað gestirnir þurfa.