Annáll Stefnu 2022

29. desember 2022
Björn Gíslason
Árið 2022 var að mörgu leyti gott ár hjá Stefnu. Starfsfólki fjölgaði á árinu en nú undir árslok erum við orðin 38. Konum fjölgaði einnig í okkar hópi á árinu sem er vel. Þá gátum við aftur farið að hittast utan vinnu samhliða afléttingu samkomutakmarkana.

Nú þegar árið er nánast liðið er góður tími til að líta yfir farin veg, íhuga það sem er að baki á sama tíma og horft er til markmiða komandi árs.

Liðið ár gekk einnig vel í rekstri Stefnu en aldrei hafa fleiri verkefni verið unnin á einu ári. Félagið hélt áfram að þróast sem hugbúnaðar- og sérfræðifyrirtæki, en ráðgjöf og sértæk hugbúnaðarþróun verður sífellt stærra hlutfall af starfsemi okkar, þó vitanlega séum við enn einnig stór í vefsíðugerð og forritun tengdri henni. Þessi þróun sést vel í mörgum þeirra verkefna sem við tókumst á við á árinu.

Þjónustuborð með 3000 snertingar

Að jafnaði berast 40-50 mál vikulega inn á þjónustuborðið á netfangið okkar, yfir árið voru það því vel yfir 2000 mál. Til viðbótar eru símtöl í þjónustuborðið og netspjallið á vefnum okkar, en í ár svöruðum við yfir 500 sinnum á netspjallinu, sem er mikill vöxtur frá árinu á undan.

Í þjónustu leggjum við áherslu á skjótan svartíma, afgreiðslu mála í samræmi við væntingar og að styrkja sjálfstæð vinnubrögð viðskiptavina okkar í Moya og öðrum umsjónarkerfum í samræmi við þjónustuloforð okkar.

Stafrænt Ísland

Stefna hefur verið með teymi í vinnu fyrir Stafrænt Ísland frá því að það verkefni fór af stað 2020. Sérfræðingar Stefnu lögðu grunn að efnisstefnu Ísland.is og hafa á undanförnum mánuðum unnið að því hörðum höndum að innleiða fjölmargar stofnanir ríkisins inn á Ísland.is, meðal annars Fiskistofu, Sjúkratryggingar og Útlendingastofnun.

Efnishönnun er stór hluti vinnunnar en þar er verið að greina þarfir notenda, hvers konar efni svarar þeim þörfum sem best og loks eftirfylgni og árangursmælingar. Þessi vinna er unnin í samstarfi við starfsfólk stofnana, starfsfólk Stafræns Íslands og önnur sérfræðingateymi.

Stafræn vegferð Heklu

Á árinu var unnið áfram að stafrænni vegferð Heklu en vegferðin hófst á endurmörkun Heklu þar sem ný heimasíða, mínar síður og vefverslun voru sett upp. Markmið vegferðarinnar er að huga að ferðalagi viðskiptavina Heklu og búa þannig um hnútana að stafrænn hluti þess fari vel saman með þeirri þjónustu sem er veitt á staðnum. Unnið hefur verið að ýmsum málum Heklu, jafnt innri sem ytri, með það að markmiði að einfalda bæði viðskiptavinum sem og starfsfólki Heklu lífið.

CAE Icelandair

Stefna skrifaði séraðlagaða bókunarvél fyrir flugherma CAE Icelandair sem fór í loftið á árinu. Bókunarvélin hefur slegið í gegn og hefur verið haldið áfram að þróa lausnina. Í dag sér hún um allt frá bókun, utanumhaldi á notkun og kennslu fram að uppgjöri.

Kvasir lausnir

Á árinu stofnuðu Stefna og Raförninn félagið Kvasir utan um sjálfvirkni og myndgreiningalausnir sem félögin hafa unnið að í sameiningu og eru undirstaðan fyrir bílastæðakerfi. Kvasir tók m.a. þátt í útboði Isavia um bílastæðalausn fyrir Keflavíkurflugvöll og var eina íslenska fyrirtækið sem komst í lokaúrtak þess útboðs. Mörg spennandi tækifæri eru framundan hjá félaginu nú þegar fleiri huga að gjaldtöku á bílastæðum jafnt tengt ferðaþjónustustöðum sem og bílastæðahúsum.

Stafræn vegferð Gleðipinna

Stefna hefur á árinu unnið áfram að stafrænni vegferð Gleðipinna. Þar hefur verið unnið að fjölmörgum verkefnum eins og nýrri bókunarvél fyrir Rush trampolíngarð, nýrri heimasíðu og pöntunarlausn fyrir Fabrikkuna, Saffran og Olifa.

Ný heimasíða Tröllaferða

Nýverið var ný heimasíða Tröllaferða, troll.is, sett í loftið en efnisumsjón er öll með headless CMS aðferðarfræðinni. Í vinnu við nýja vefinn var mikil áhersla lögð á leitarvélabestun og hraða. Þarfir stærstu viðskiptavinahópa Tröllaferða voru sérstaklega hafðar í huga og tækniumhverfi sett upp með það markmið að vefstjóri Tröllaferða hafi sem mesta stjórn á innihaldi og útliti.

Sveitarfélög

Stefna hefur löngum haft sterka stöðu meðal sveitarfélaga landsins er Stefna annast heimasíður um 65% allra sveitarfélaga á landinu. Á árinu fóru í loftið nýir vefir í loftið fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Stykkishólmsbæ, Seltjarnarnesbæ auk þess sem nýir vefir Reykhólahrepps, Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps, Flóahrepps og Skagabyggðar eru í farvatninu.

Á árinu var einnig unnið að nýju appi sveitarfélaga sem mun fara í loftið innan tíðar hjá fyrstu sveitarfélögunum. Um samstarfsverkefni nokkurra sveitarfélaga er að ræða og er öll vinnan unnin í opnum hugbúnaði með það að markmiði að fleiri sveitarfélög geti nýtt sér appið.

Forritunarverkefni

Líkt og á undanförnum árum var unnið að mörgum forritunarverkefnum á árinu þar sem sérfræðingar Stefnu eru ýmist að skrifa nýjar lausnir fyrir viðskiptavini eða að þjónusta núverandi tölvukerfi þeirra. Sem dæmi um þessi verkefni má nefna vinnu við Bændakerfi Matvælaráðuneytisins og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, vinnu við nemendakerfi Háskóla Íslands, Uglu, nýjar stafrænar lausnir fyrir Umhverfisstofnun og vinna við innri kerfi Orkuveitu Reykjavíkur. Stærri ráðgjafar- og forritunarverkefni eru vaxandi hluti af starfsemi Stefnu og við hlökkum til að efla þennan hluta starfseminnar enn frekar á komandi árum.

Samsettir vefir

Vefsíðugerð skipar enn stóran sess í starfsemi okkar, meðal vefja sem fóru í loftið á árinu voru nýr vefur Hostel.is, uppfærð netverslun Hljóðfærahússins sem er beintengd við uppfært Business Central, nýr og betri vefur Heilsutorgs, vefur Nice Air flugfélagsins, nýir vefir fyrirtækja með starfsemi í Orkuhúsinu og nýr vefur Ferðamálastofu. Allt í allt fóru að jafnaði 2 vefir í loftið í hverri viku allt árið.

Á árinu kynntum við skemmtilega nýjung sem við köllum samsettir vefi. Þar geta viðskiptavinir raðað saman eigin síðu sem hentar þeirra starfsemi sem best og fengið hana afgreidda hratt og örugglega. Nú þegar hafa fjölmargir samsettir vefir farið í loftið, alls yfir 100 vefir. Skoða dæmi um samsetta vefi.

Horft til 2023

Árið 2023 rennur skjótt í garð og við hjá Stefnu horfum með eftirvæntingu til nýs árs enda margt spennandi framundan. Stefna verður 20 ára á árinu og ætlum við að gera eitt og annað á komandi mánuðum í tilefni afmælisins.

Á nýju ári munum við kynna nýja útgáfu af Moya vefumsjónarkerfinu sem við erum sannfærð um að mun vekja jákvæð viðbrögð bæði hjá nýjum sem vönum Moya notendum, en með nýju útgáfunni er verið að koma til móts við margar óskir Moya notenda; bakendi hefur verið endurhannaður, breytingar gerðar á efnis- og myndvinnslu – og margt fleira.

Eins og kom fram hér að framan hefur teymi sérfræðinga unnið að efnisstefnu og efnishönnun fyrir Stafrænt Ísland. Við sjáum fyrir okkur á nýju ári að bjóða þessa þjónustu í auknum mæli til annarra viðskiptavina – sem og aðra ráðgjöf og sérfræðiþjónustu sem félagið hefur upp á að bjóða. Mörg spennandi verkefni eru þegar á borðinu og mörg áhugaverð samtöl í gangi.

Að lokum langar mig að nýta tækifærið og þakka viðskiptavinum, starfsmönnum og ykkur öllum fyrir árið sem er að líða og óska ykkur velfarnaðar á nýju ári.