Einfaldaðu líf notenda þinna með rýni leiðakerfisins

08. febrúar 2022
Pétur Rúnar
Með reglubundinni rýni á leiðakerfi vefjarins tryggir þú að vefurinn þinn sé að þjóna notendum sem best. Skilgreindu lykilverkefnin, rýndu í aðgangstölurnar og gerðu markvissar breytingar í takt við þarfir notenda.

Leiðakerfið, sem einnig kallast valmynd og er nátengt því sem nefnist veftréð, er grunnuppbyggingin á vefnum þínum. Það getur verið einfaldast að sjá fyrir sér leiðakerfið sem tré (veftré) því það kvíslast oftar en ekki í þrjú eða fjögur stig.

Hvað eiga hlutirnir að heita?

Helsta leiðarljósið í nafngiftum á atriðum valmyndar ætti að vera hvaða orðalag nota viðskiptavinir mínir? Mikilvægt er að vefurinn tali sama mál og notendurnir, því þannig eru auknar líkur á að valmyndin nýtist til fulls.

Það eru nokkrar leiðir til að rýna í orðanotkunina:

  • Hlustaðu á hvaða orðalag viðskiptavinir þínir nota í samtölum við þig og sín á milli, til dæmis í fyrirspurnum, umræðum á netinu og símtölum.
  • Framkvæmdu einfaldar notendaprófanir með 4-5 skilgreindum verkefnum og horfðu yfir öxlina á þeim sem leysa verkefnin (án þess að trufla/leiða notendur áfram).
  • Skoðaðu hvaða leitarorð eru algengust.
  • Skoðaðu hvaða orðalag samkeppnin notar.

Þrjú nöfn yfir sama hlutinn

Þegar þú velur lýsandi orð í veftréð/leiðakerfið skaltu hafa í huga ólík hlutverk sem lýsigögnin hafa:

  • Í leiðakerfinu á orðanotkun að vera stutt, lýsandi og gegnsæ.
  • Fyrirsögn síðunnar getur verið lengri, gildishlaðin og upplýsandi.
  • Titill (title í HTML kóðanum) er eingöngu sýnilegur í flipa vafrans og Google leitarniðurstöðum.

Dæmi um þetta getur verið eftirfarandi orðanotkun:

  • Fræðsla - í leiðakerfinu
  • Fróðleikur um allt milli himins og jarðar - fyrirsögn síðunnar
  • Fróðleikur sem kemur þér í gott skap - titill fyrir Google leitarniðurstöður

Horfðu á 10 eða 20 mikilvægustu (mest sóttu) síðurnar á vefnum þínum með þetta í huga.

Tvenns konar sýn á veftréð

Í Moya getur þú fengið tvenns konar yfirlit leiðakerfisins/veftrésins, annars vegar með því að opna „Veftré“ og hins vegar með því að smella þar á „Raða efni“.

Hér má sjá hefðbundna sýn á hluta veftrésins hér á stefna.is:

Á myndinni má sjá hvernig nafn síðunnar er í sér dálki, tenging við efnið (í viðeigandi einingu) er í næsta dálki, þá kemur sér dálkur fyrir lýsigögnin (META lýsing, META lykilorð og mynd fyrir samfélagsmiðladeilingar) og í síðasta dálkinum er hnappur til að breyta og eyða úr veftré.

Þegar smellt er á "Raða veftré" birtist önnur sýn þar sem sjá má allar slóðirnar eins og þær myndast sjálfkrafa út frá hverri yfirgrein:

Í þessari sýn er ekki hægt að framkvæma neinar aðgerðir, aðrar en að draga hverja línu og færa hana upp/niður innan sömu yfirgreinar eða færa hana á milli yfirgreina.

Endurvísanir þegar síða er færð til

Athugið að þegar grein er færð í aðra yfirgrein, þá breytist slóðin sjálfkrafa og því ætti að útbúa endurvísun af eldri slóð yfir á þá nýju. Ef síðan „Hollráð fyrir netverslun“ er færð frá /is/hvad-gerum-vid/vefverslanir/ yfir á /is/hvad-gerum-vid/stafraen-vegferd þá breytist slóðin á viðeigandi hátt. Það þýðir að viðeigandi síða verður tímabundið ekki aðgengileg úr Google. Leiðakerfið á vefnum uppfærist sjálfkrafa, en aðrar síður sem vísa á úrelta slóð taka ekki við sér sjálfkrafa. Áður en þú breytir staðsetningu/slóð er því gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Útbúa endurvísun í veftrénu úr gömlu slóðinni yfir á nýja staðinn, þá halda allar vísanir áfram að virka.
  • Google uppfærir leitargrunninn sinn yfirleitt á nokkrum dögum.
  • Vísanir í gömlu slóðina á þínum eigin vef getur þú uppfært, en leiðakerfið uppfærist sjálfkrafa.
  • Vísanir í gömlu slóðina á öðrum vefjum getur þú óskað eftir að verði breytt.

Til að útbúa endurvísun þarf að fylgja eftirfarandi skrefum:

  • Geyma/afrita gömlu slóðina, ef hún er týnd geturðu fundið hana með því að gúggla eftir síðunni sem þú færðir.
  • Opna veftréð og velja þar „Endurvísanir“ og þar „Bæta við“.
  • „Gömul slóð“ er slóðin á síðuna eins og hún var áður (sú sem núna skilar 404 villu).
  • „Ný slóð“ er valin úr veftrénu.

Þú getur prófað endurvísunina með því að gúggla eftir síðunni og smella á niðurstöðuna í Google.

Svo lengi sem síðan sem þú vilt vísa á er í veftrénu, þá geturðu útbúið svona endurvísanir eins oft og þú vilt. Endurvísanir er líka hægt að nota til að útbúa skammslóðir inn á efni á vefnum (til að nota í prentefni til dæmis).

Þá er að koma sér að verki!

Þú getur byrjað smátt og unnið verkefnið jafnt og þétt. Láttu það ekki vaxa þér í augum, hlustaðu á notendur, horfðu gagnrýnum augum á fyrsta og annað stig í leiðakerfinu og taktu reglulega rýni og samtal um leiðakerfið við þá sem standa verkefninu næst.

Að sjálfsögðu erum við í Stefnu alltaf boðin og búin að taka samtalið og veita ráðgjöf í umbótaverkefnum sem þessum. Heyrðu í okkur ef þörfin kviknar!