Bættu stöðu þína í Google - SEO

25. júlí 2022
Pétur Rúnar
Í þessum pistli fjöllum við um helstu punkta til að tryggja góðan sýnleika í leitarvélum - sem þýðir í einu orði sagt; Google.

Helstu lykilpunktar til að tryggja góðan sýnileika í leitarvélum (Google) eru:

 1. Viðeigandi lykilorð í titli, fyrirsögnum og texta.
 2. Fylla út META description lýsingu síðunnar í veftré.
 3. Hlekkir inn á vefinn og undirsíðurnar af öðrum vefjum.
 4. Rétt skilgreindir hlekkir (orðið sem hlekkurinn er á) og virkir hlekkir (ekki séu brotnir hlekkir).
 5. Viðeigandi lýsigögn fyrir myndir (alt texti og title).

Í lokin á greininni fjöllum við einnig um helstu aðferðir til að stilla til sýnileika gagnvart Google (Search Console) og samfélagsmiðlum (Facebook einna helst) og fylgjast með/mæla árangurinn.

Athugaðu: Ekki mikla verkið of mikið fyrir þér:

 • Byrjaðu á mikilvægustu (mest sóttu) síðunum á vefnum.
 • Byrjaðu smátt.
 • Mældu/fylgstu með árangrinum, athugaðu að vægi gagnvart Google breytist á 2-3 vikum

Viðeigandi lykilorð í titli, fyrirsögnum og texta

Hvernig velurðu mikilvægustu orðin til að leggja áherslu á? Það er í raun einfalt, það eru þau orð sem þínir viðskiptavinir leita eftir. Þú skalt því leggja áherslu á orðalagið sem notað er um þig ekki endilega orðalagið/orðin sem þú notar sjálf(ur).

Athugaðu að oft leitar fólk að gildishlöðnum orðum eins og „ódýrasta“ og „besta“. Slíkt er mjög erfitt að grípa/nota, því yfirleitt er mjög hæpið að fullyrða um vöru og þjónustu í efsta stigi.

Dæmi: Notaðu frekar „rúta“ heldur en „áætlunarferðir“ og „rusl“ frekar en „sorphirða“.

Athugaðu líka að notendur nota jöfnum höndum samsett orð eða fjölorðaleit til að þrengja leitina, eins og „matjurtaræktun“ til jafns við „matjurir ræktun“. Hafðu jafnvægi í notkun samsettra og aðskildra orða sem þessara.

Mikilvægasta staðsetning þeirra orða sem þú vilt að Google taki tillit til eru:

 • Titill síðunnar.
  Þetta er <title> taggið efst í kóða síðunnar, það ræður titlinum í Google leitarniðurstöðum og er einnig titillinn sem þú sérð í vafranum (t.d. í tab) þegar síðan er skoðuð.
 • Fyrirsagnir.
  Þetta eru <h1>, <h2> og mögulega <h3> í meginmáli síðunnar. Hver síða inniheldur eitt h1 og nokkur h2 og mögulega h3 eða h4 líka.
 • Texti síðunnar.
  Hæfilegt magn texta og viðeigandi notkun lykilorða getur skipt miklu máli.

Allt ofantalið nýtist leitarvélinni en textann ætti ekki síður að skrifa og sníða til með tilliti til þess að notandinn finni viðeigandi upplýsingar á viðeigandi stað. Flæði fyrirsagna og texta þarf að vera eðlilegt og þægilegt. Varast þarf of langar fyrirsagnir, of mikinn samfelldan texta og mikilvægt að brjóta upp langan texta með millifyrirsögnum h2 eða jafnvel h3.

Svona lítur titillinn út í leitarniðurstöðum


META description hverrar síðu í veftré

Í Google leitarniðurstöðum er oftar en ekki sýnilegur META description texti síðunnar beint fyrir neðan titilinn. Þessi texti er hvergi sjáanlegur á vefnum þínum nema þú afritir/notir sama texta í texta síðunnar. Þennan texta má því sníða sértækt fyrir leitarvélar.

Svona lítur META description út í leitarniðurstöðum

Miða skal við 160 stafabil fyrir META lýsingu (e. description) og passa þarf upp á eftirfarandi viðmið:

 • Ekki nota sama textann á margar síður.
 • Nota sem flest viðeigandi lykilorð en forðast eintóma upptalningu orðanna.
 • Textinn þarf að vera samfelldur og lesast sem setning.

Í Moya sérðu hvort META descrition hefur verið stillt beint úr veftrénu, gula íkonið birtist þegar META lýsing hefur verið virkjuð:


Hlekkir inn á vefinn og undirsíðurnar af öðrum vefjum

Hér hefur þú takmörkuð völd, þú getur ekki haft mikla stjórn á því hvaða vefir vísa inn á þinn vef. Það er einmitt vegna þess hversu erfitt er að stýra þessu handvirkt sem Google og aðrar leitarvélar gefa þessum lið talsvert vægi.

Í praxís virkar þetta þannig að Google gefur hverjum vef ákveðinn stigafjölda fyrir vægi (authority score) sem þýðir að hlekkur af vef Alþingis hefur mun meira vægi en hlekkur af vef Stefnu. Um leið og einn vefur er farinn að vísa út og suður með alls konar orðum og vísunum fellur vægi á þeim vef.

Besta leiðin til að byggja upp áreiðanlega hlekki er að eiga gott samstarf við þína samstarfsaðila og þá sem eru í sambærilegri starfsemi og þú (væntanlega þó ekki keppinautana).

Þessi vinna kallast linkbuilding á ensku, með henni vinnur þú markvisst í því að mikilvægustu undirsíðurnar þínar fái hlekki frá öðrum vefjum. Það krefst handavinnu, samskipta við aðra ritstjóra og setur þá kröfu að vefurinn þinn sé með viðeigandi upplýsingum og traustsins verður.

Hafðu þetta í huga við þessa vinnu:

 • Byrjaðu smátt, 1-2 hlekkir frá öðrum vefjum er stórt skref í rétta átt.
 • Gott er að hlekkirnir séu ekki eingöngu á forsíðuna, heldur viðeigandi undirsíðu.
 • Orðin á hlekknum skipta máli, það er betra fyrir Stefnu að fá hlekkinn „vefsíðugerð“ heldur en eingöngu nafn fyrirtækisins, því vefsíðugerð er almennt leitarorð en nafnið ekki.

Rétt skilgreindir hlekkir og engir brotnir hlekkir

Hér erum við komin í gæðamál á vefnum, sem skipta sannarlega máli þegar kemur að „dómi Google“ á vefnum þínum í samanburði við keppinautana. Þetta er í sjálfu sér einfalt:

 • Hafðu viðeigandi orð á hlekkjum á vefnum þínum, forðastu hlekki eins og hér, nánar, skoða og lesa.
 • Skimaðu eftir brotnum hlekkjum, þetta getum við framkvæmt fyrir þig en í boði eru fjölmörg tól sem geta skimað eftir brotnum hlekkjum.

Viðeigandi lýsigögn fyrir myndir

Mikilvægi þessa liðar fer eftir eðli vefjarins. Ef þú rekur netverslun skipta myndir miklu máli, en fyrir vef sveitarfélags er vægi mynda mun minna.

Þegar talað er um lýsigögn mynda er ekki átt við sjálft skráarnafn myndarinnar, rannsóknir á virkni leitarvéla sýna að nafnið skipti óverulegu ef þá yfir höfuð nokkru máli.

Lýsigögn myndarinnar og lýsigögn síðunnar skipta öllu máli þegar kemur að staðsetningu og vægi í Google Image Search, þ.e.a.s. myndaleitinni á Google.

Notkun á title og alt-merkingum ættu að endurspegla þessa virkni:

 • alt-merkingin er fyrir þá sem ekki sjá myndina, þar ætti því að lýsa því hvað er á myndinni.
 • title-merkingin er textinn sem birtist þegar músarbendill er færður yfir myndina, þar ætti því að auðga lýsingu fyrir þeim sem sér myndina.

Dæmi um þetta gæti verið peysa:

alt: "Gul, hálfrennd flíspeysa frá H&M"
title: "Hlý flíspeysa sem lífgar upp á sumarið"

Dæmið að ofan sýnir hvernig alt-lýsingin er „staðreyndarlýsing“ en hin er gildishlaðin og þar má koma fyrir lykilorðum sem hafa vægi hjá notendum eins og „hlý“ og „sumar“.

Svona breytir þú lýsigögnum myndar

1. Smelltu á myndina og svo „Myndastillinga“-íkonið:

2. Ritaðu inn viðeigandi texta í reitina: