Í aðdraganda hönnunar - nytsamlegir punktar

04. apríl 2022
Pétur Rúnar
Í aðdraganda hönnunar er gott að draga að borðinu hagsmunaaðila frá ólíkum hópum fyrirtækisins/stofnunarinnar. Jafnmikilvægt er þó að skýrt sé hver tekur endanlega ákvörðun og hvernig er höggvið á hnúta þegar ólíkar aðferðir eða leiðir togast á í hópnum.

Hönnunarferli má skipta í tvennt, annars vegar er uppröðun og uppbygging ákveðin út frá þeim skilgreindu markmiðum sem greining hefur skilað og hins vegar grafísk hönnun þar sem litir og áferð er ákveðin í samhengi við hönnunarstaðal, merki og fyrirliggjandi markaðsefni.

Í fyrri hlutanum er gagnlegt að hafa skilgreinda markhópa, skilgreind lykilverkefni markhópanna, skipulag veftrésins í samhengi við þetta tvennt og sömuleiðis áherslur í þjónustu, sölu og ásýnd/markaðsmálum. Í þessu ferli getur þurft að ákveða til dæmis hvort sé mikilvægara (og fái meira vægi/sé ofar á forsíðu): söluskilaboð um nýjar vörur eða þjónustuskilaboð um algengustu spurningar viðskiptavina.

Í nýjustu straumum vefhönnunar hefur þróunin verið frá dálkaskiptingu og í flekaskiptingu. Þetta þýðir svo dæmi sé tekið að fréttir og viðburðir eru ekki hlið við hlið á forsíðu, heldur er ákveðið hvort er fyrir ofan. Þetta er meðal annars afleiðing af því að á smærri skjáum er aðeins einn dálkur sýnilegur og því þarft hvort sem er að velja hvort er fyrir ofan (og það hjá 50% eða hærra hlutfalli notenda). Af þessu leiðir að flestir vefir eru í dag hannaðir út frá flekum í stað dálka, þá nær heill fleki yfir alla breidd skjásins hvort sem um er að ræða stóran skjá borðtölvu eða smærri skjái spjaldtölvu eða símtækis.

Hafa skal í huga að hver fleki innihaldi einsleita tegund efnis. Einfaldasta útgáfan af þessu er að fréttir blandist ekki saman við viðburði í einum og sama flekanum, einnig að útlit fréttaflekans sé ekki of líkt útliti viðburðarflekans. Með þessum hætti fær notandinn sýnilega aðgreiningu og ruglar ekki saman fréttum og viðburðum þegar skrunað er niður síðuna.

Note to self: Geta stillt færri fjölda frétta sýnilegan í mobile á forsíðu.

Fylgifiskur þess að hafa sem flest af efni vefjarins í heilum flekum (í stað dálka eins og áður var) er að auðveldara er en áður að endurraða flekum og hafa þá jafnvel ólíka á milli síðna. Með dálkaskiptingu er erfitt að halda jafnvægi og með ólíkri dálkabreidd passar efnið ekki á milli dálkanna. Lífið með flekum er því auðveldara og þægilegra að mörgu leyti.

Þar sem efni flekanna er óhóflega mikið fyrir smærri skjái farsíma er möguleiki til dæmis að fækka sýnilegum fréttum í farsímaútgáfu vefjarins, þannig að á fleka borðtölvunnar eru 4 fréttir sýnielgar en aðeins 2 á farsímanum. Slík nálgun hefur lítil sem engin áhrif á efnisvinnsluna, en gott er að skilgreina þörfina og vera meðvitaður um birtingu ólíkra skjástærða á því efni sem er framleitt.

Þá er einnig möguleiki að útbúa fleka sem birtist eingöngu í farsíma, það gæti verið fleki með sýnilegum opnunartíma. Fyrir borðtölvuna dugir að hafa opnunartíma sem hluta af upplýsingum í fæti (þar sem margir leita þeirra) en í farsímanum væru opnunartímar dagsins sjálfkrafa sýnilegir.

Annar kostur við flekana er að hægt er að „skjóta inn“ flekum þegar aðstæður krefjast þess. Algengasta dæmið um þetta eru tilkynningaborðar sem birtast eingöngu þegar þjónusturof á sér stað, jafnvel snjóflóðahætta eða tilkynning vegna sóttvarna. Slíku fleki getur birst og horfið aftur eftir því hvaða aðstæður skapast.