Nýi vefurinn þinn: Komum honum í loftið

17. desember 2021
Pétur Rúnar

Vefurinn þinn er „tilbúinn“ en að mestu tómur - nú byrjar gamanið!

Þessi pistill sem einblínir á efnisvinnslu og ferlið að koma vef í loftið er unnin upp úr fyrri pistli: Svona verður vefur til. Hér er því nokkuð um endurtekningar af efni þeirrar greinar.

Efnisvinnsla og rýni á vefsvæðinu

Nú færð þú aðgang að vefnum á læstu vinnslusvæði til að vinna efnið inn á vefinn. Þá er jafnframt framkvæmd rýni og ítarlegri prófanir á einstaka virkni, sérstaklega í samhengi við það þegar „alvöru“ efni (texti og myndir) er komið inn í útlitið.

Stefna sér alla jafna ekki um efnisvinnsluna, en í mörgum verkefnum er afmarkaður hluti efnis fluttur af eldri vef (ef við á) eins og t.d. viðburðir, fréttasafn eða skjalasafn. Efnisflutningur gerist ekki sjálfkrafa og því þarf að ræða þetta sérstaklega og yfirleitt eru ákvæði í verksamningi um umfang efnisflutnings. Í þeim tilvikum þar sem efni er flutt af eldri vef úr öðru vefumsjónarkerfi kemur þriðji aðili að því að afhenda gögnin á viðeigandi sniði (gagnagrunnur).

Í þessum áfanga er mestur þungi vinnunnar hjá verkkaupa. Við efnisvinnsluna er rétt er að byrja á að skrá sig inn á læsta vefsvæðið, skrá sig því næst inn á vefumsjónarkerfið og prófa sig áfram. Í kjölfarið er boðið upp á kennslu á virkni kerfisins og sérvirkni (ef einhver er). Leiðbeiningar og myndbönd geta aðstoðað mjög í þessu efnum, en við mælum sterklega með 1 klst af kennslu, sem fylgir með öllum nýjum vefjum.

Í þeim tilfellum þar sem efnisvinnsla hefst áður en vefurinn er fullkláraður er rýni á heildarútlitið og virkni ekki framkvæmd fyrr en við hjá Stefnu gefum grænt ljós. Þessi aðferð hentar vel þegar efnisvinnsla er umfangsmikil og nýta á tímann í innsetningu og vinnslu efnis jafnvel þótt vefurinn sé enn ekki fullkláraður af okkar hálfu.

Gagnlegir punktar í efnisvinnslu

1.
Veftré (grunnskipulag) sett upp í Excel og keyrt inn á vefinn af Stefnu.

2.
Við þetta verður til tómt veftré sem hægt er að rita efnið inn í. Það hjálpar til við að sjá fljótlega heildarmyndina en er alltaf hægt að breyta eftirá.

3.
Ekkert efni fylgir sjálfkrafa af gamla vefnum, það er skrifað inn í vefinn eða límt inn með copy+paste.

4.
Þegar efni er límt af eldri vef þarf að passa upp á að stílar fylgi ekki og passað upp á rétta notkun á millifyrirsögnum (heading).

5.
Passaðu upp á að fyrirsagnir séu á mannamáli. Við það verður vefurinn læsilegri og fyrir leitarvélabestun (SEO) skiptir höfuðmáli að nota orðalag sem notendur skilja, tengja við og leita eftir.

6.
Hægt er að hafa einn titil á síðu í valmynd (veftrénu) og annan titil á síðunni sjálfri. Dæmi: „Matseðill“ í leiðakerfi en „Matseðill - hollur og góður“ í fyrirsögn. Í fyrirsögnum er því tækifæri til að skrifa litríkari og markaðsvænni texta, valmyndin (veftréð) á að vera stutt og skorinort.

7.
Hægt er að stilla sérstakan title síðunnar, en það er sá titill sem birtist í flipa í vafranum (browser tab) og einnig sá titill sem Google notast við. Sjálfgefið er að notaður sé sami titill og í leiðakerfinu, en í SEO flipanum í veftrénu er hægt að setja inn „spennandi“ titil, sem á ekki erindi í leiðakerfið (t.d. „Ódýrar gæðavörur frá ACME“, í stað „ACME vörur“.

8.
Í SEO flipanum er jafnframt hægt að rita META lýsingu, sem er sérstaklega miðuð að leitarvélum. META lykilorð eru hunsuð af Google, en geta nýst til að merkja síðuna fyrir innri leitarvélina á vefnum.

9.
Í miklu textaflæði er gagnlegt að nýta „gardínur“ annars vegar og feitletrun aðalatriða hins vegar. Það léttir notandanum mjög skimun yfir texta.

10.
Gott er að brjóta og styðja við texta upp með myndum. Helst ætti að hafa myndir af þjónustunni sem er veitt og fólki frekar en byggingum og grafískar myndir, settu þér markmið um myndefni og taktu mið af því hvaða síður eru mest skoðaðar.

Gott flæði á milli síðna

11.
Hafa skal í huga að notandinn er yfirleitt ekki að einblína á valmyndina og leiðakerfið. Augu notandans eru límd á aðalsvæðið á hverri síðu, sem er með texta eða myndum. Mjög gagnlegt getur verið að setja hnappa þar á viðeigandi undirsíður eða hliðarsíður. Þetta er að fullu ritstjóra að ákveða og stilla upp inn á hverja síðu. Velja má “button” stíl á hlekk, sem verður þá að hnappi.

12.
Hlekkir inni í textanum sjálfum hjálpa bæði notandanum að hoppa á milli síðna (án þess að leita efnis í leiðakerfinu) og styðja líka vel við leitarvélabestun (internal links). Alltaf ætti að setja hlekkina á viðeigandi orð, en ekki nota hlekki eins og “hér”, “áfram” eða “smellið hér”.

13.
Gott er að fá aðila ókunnugan efnisvinnslunni og vefnum fram að þessu til að prófa vefinn og leysa nokkur einföld (og e.t.v. nokkur flóknari) verkefni. Fljótlegt er að skilgreina lykilverkefni („sendu fyrirspurn á fyrirtækið“) og þannig komast að því hratt hvort bæta megi orðalag eða uppbyggingu. Glöggt er gests augað.

Áður en vefurinn fer í loftið

14.
DNS uppsetningu, stýring á léninu, þarf að undirbúa með u.þ.b. 7 daga fyrirvara, eða að lágmarki sólarhringi áður en vefurinn fer í loftið.

15.
Endurvísanir af eldri vef er hægt að keyra inn úr skjali eða setja inn handvirkt. Gott er að fylgjast með 404 villum í AWstats greiningartólinu eftir að vefurinn er kominn í loftið og grípa þannig þær slóðir sem flestir eru að koma inn á. En allra best er að undirbúa þetta vel og setja inn vísanirnar áður en notendur fá 404 villur.

16.
Prófa þarf eyðublöð og setja upp allar viðeigandi stillingar fyrir vefinn eins og netfang sendanda, hvort vista eigi innsend eyðublöð og hvort innsent eyðublað eigi að sendast á stjórnanda og/eða notanda.

17.
Er tenging við Google Analytics (og/eða Google Tag Manager) klár? Eru aðrar tengingar inn til þriðja aðila sem þarf að huga að? Einnig: Er búið að stilla persónuverndarstefnu og virkja kökuborða með viðeigandi hætti?

Vel gert hjá þér! Þú ert þolinmóð manneskja og býrð greinilega yfir góðri einbeitingu og metnaði til góðra verka.

Takk fyrir lesturinn og gangi þér vel!

 

Vefur í loftið, fleira gagnlegt: