Vorverkin á vefnum þínum - hlúð að garðinum

13. apríl 2021
Pétur Rúnar
Hollt er að endurskoða vefinn og innihald hans með reglubundnum hætti. Í þessum pistli er talað um vorverkin, sem er einfaldlega vísun í að á vorin þarf að horfa á garðinn sinn og meta ástandið að undangengnum vetri og hvaða verkefni eru framundan fyrir og um sumarið.

Að öðru leyti þarf  þessi vinna ekki að eiga sér stað á vorin, það er alltaf rétti tíminn til að sinna vefnum og í þessum pistli eru nokkrar vísanir í verk sem geta dreifst yfir árið, því með því að búta vinnuna niður er hægt að bóka hjá sér stuttan tíma í hverri viku og vinna áfram að því að halda vefnum uppfærðum og þannig bæði minnka umfang vinnunnar og tryggja að mikilvægustu atriðin séu leyst með skipulögðum vinnubrögðum.

Hægt er að dreifa vinnunni á fleiri en einn aðila, það getur hjálpað mikið til að fá stuðning og um leið aðhald frá teyminu. Þannig má útbúa hálftíma stöðufundi á fjögurra vikna fresti þar sem skerpt er á áherslunum og vinnu hvers og eins.

Eitt af því mikilvægasta sem þú gerir fyrir vefinn þinn er að yfirfara efnið og tryggja eins og kostur er að textaefni á vefnum sé ekki óyfirlesið í meira en ár í senn. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við sögulegt efni eins og eldri fréttir eða viðburði.

No alt text provided for this image

Rýni á úreltu efni

Í Moya vefumsjónarkerfinu er góður stuðningur við slíka endurskoðun á textaefni. Hægt er að opna „Síður“ í bakenda kerfisins sem birtir yfirlit allra síðna á vefnum. Þar er hægt að sía eftir því hvenær viðkomandi síða var síðast uppfærð (velja frá-til dagsetningar) og þannig hægt að velja „01-01 til 31-12“ á tilteknu ári og þannig fá upp lista af þeim síðum sem voru síðast uppfærðar á því ári sem um ræðir, til dæmis árið sem vefurinn fór í loftið.

Einnig er hægt að raða öllum síðum eftir „Síðast uppfærð“ og þannig sjá heildarlistann út frá þessum forsendum, eini munurinn er að þegar valið er tiltekið tímabil (til dæmis ár), þá verður til „verkefnalisti“ og hægt að setja sér markmið að tæma þann lista fyrir tiltekinn tíma.

Þegar síða er opnuð í ritham er nóg að smella á „Vista“ til að uppfæra dagsetninguna fyrir síðuna. Sú aðgerð tryggir auðvitað ekki að búið sé að lesa yfir allt efni síðunnar, en með því að gera það áður en vistað er, er hægt að nýta þessa dagsetningu til að tryggja eins og hægt er að allar síður séu lesnar yfir til dæmis árlega.

Athugaðu að sumar síður eru ekki tengdar við vefré. Þetta sést á slóðinni sem þá inniheldur „moya/page“ og þarf þá yfirleitt að ákveða annað af tvennu: 1) bæta síðunni í veftréð eða 2) eyða síðunni úr kerfinu (óafturkræf aðgerð).

Rýni á mikilvægasta efninu

Önnur nálgun á yfirlestur og endurbætur á vefnum er að horfa á þær síður sem eru mest lesnar. Þá er hægt að nota umferðargögnin fyrir vefinn (til dæmis AWStats eða Google Analytics) til að forgangsraða hvar skuli byrjað. Þegar horft er á listann af mest skoðuðu síðunum er hægt að búa til lista af 4-10 síðum sem eru yfirfarnar í hverri atrennu. Hver vinnustund gæti þá nýst til að lesa yfir nokkrar síður af þeim ekki hafa verið uppfærðar lengi (fyrri listinn) og jafnframt rýna enn frekar nokkrar af vinsælustu síðunum (seinni listinn). Með þessu verklagi er ekki verið að velja annað umfram hitt, heldur tikka atriði af hvorum listanum í hvert sinn.

No alt text provided for this image
 

Góður vefur gerður betri

Ef tryggt er að efnið er uppfært og með viðeigandi gögnum skapast svigrúm til að horfa á efnið út frá enn þrengri forsendum. Hér er listi af því sem hægt er að gera til að styrkja enn frekar efnið, auðga upplifun notenda og byggja upp vef sem er bæði skemmtilegur og þægilegur í notkun:

  1. Millifyrirsagnir. Þegar notandi kemur inn á tiltekna síðu skima augun sjálfkrafa yfir síðuna í leit að einhverju bitastæðu. Með því að nota millifyrirsagnir (fyrirsögn 2 og fyrirsögn 3) á réttan hátt ert þú að auðvelda notendum að finna það efni sem leitað er að. Feitletrun inni í texta getur líka komið að góðum notum.

  2. Mynd sem styður við efnið. Það getur verið vandasamt að finna góða mynd sem passar við efnið. Oftar en ekki þarf að útbúa sérstakt verkefni til að teknar séu einmitt þær myndir sem passa inn á vefinn. Þetta verkefni má búta niður eins og annað og byrja á því að panta/taka myndir við 10 vinsælustu síðurnar á vefnum. Til eru aðferðir til að taka myndefni sem sýnir ekki andlit á áberandi hátt og því ætti enginn að skýla sér á bakvið persónuverndarsjónarmið þegar kemur að því að taka myndir fyrir vefinn.

  3. Gardínur (fellilistar) henta vel þegar birta á mikið textaefni. Þá er hægt að fela stóran hluta textans innan fyrirsagnar og notendur smella á þann kafla sem við á. Þessi framsetning hentar einnig mjög vel fyrir birtingu í farsíma. Helsti galli við þessa aðferð er að leitarvélar greina ekki á milli þess sem er innan og utan gardínunnar og því þarf notandi sjálfur að finna efnið inni í gardínum.

  4. Þegar hugað er að aðgengi þarf að passa upp á að millifyrirsagnir séu rétt notaðar (fyrirsögn 2 og fyrirsögn 3). Ef leturstærð á fyrirsögn 2 þykir of stór ætti frekar að minnka hana en að nota alltaf fyrirsögn 3. Rétt notkun fyrirsagna skiptir máli fyrir gott aðgengi. Einnig ætti að forðast niðurhali á PDF skjölum og til dæmis ættu gjaldskrár frekar að vera birtar inni á síðunni en í slíkum skjölum. Aldrei ættu að vera hlekkir á borð við „Sjá hér“, „hér“ eða „nánar“, því þegar skjálesarar lesa upp slíka hlekki gefur það notendum enga vísbendingu um hvert hlekkurinn vísar: „hér, hér, hér“ (þrír hér-hlekkir í röð).

  5. Gott er að venja sig á að hafa hlekki áfram á viðeigandi tengt efni eða tengdar síður neðst á hverri síðu. Þetta hjálpar sérstaklega þeim sem lesa síðuna í farsíma. Þetta má setja inn handvirkt og setja upp sem lista eða sem hnappa.

Ef síður eru færðar til í veftrénu er mikilvægt að útbúa endurvísun af slóðinni sem er að úreldast (eldri slóð) yfir á viðeigandi stað í veftrénu. Þetta getur vefstjóri gert á fljótlegan hátt og þannig sparað notandanum sem kemur inn á úrelta slóð (til dæmis úr Google leitarniðurstöðum) mikinn tíma og fyrirhöfn.

Hægt er að fylgjast með öllum 404 (síða fannst ekki) villusíðunum fyrir hvern mánuð í AWStats tólinu. Með því að vinna alltaf út frá þeim lista er smám saman hægt að útrýma með öllu brotnum hlekkjum, hvort sem það eru innri hlekkir eða hlekkir frá öðrum vefjum (eða í Google leitarniðurstöðum).

Sértækar aðgerðir

Það sem ritað er hér að ofan er skrifað á almennum nótum og þannig að sem flestir geti nýtt sér þau. Fyrir hvern vef eru svo líka sértækari aðgerðir eða aðferðir sem ætti að nota til að efla vefinn og styðja við markmið um sölu, þjónustu eða upplýsingagjöf, eftir því sem við á.

Hafðu samband við okkur í Stefnu til að fá sértækari ráðgjöf fyrir vefinn þinn og fáðu meira út úr þinni fjárfestingu. Við forgangsröðum út frá því sem skilar mestum ávinningi fyrir sem minnsta fyrirhöfn.