Besti sveitarfélagavefurinn 2015: Akranes.is

26. nóvember 2015
Stefna Ehf
Vefur Akraneskaupstaðar var valinn besti sveitarfélagavefurinn 2015 í úttekt á vegum Innanríkisráðuneytisins.
Vefur Akraneskaupstaðar var valinn besti sveitarfélagavefurinn 2015 í úttekt á vegum Innanríkisráðuneytisins.

Í úttekt á vegum Innanríkisráðuneytisins undir merkjum „Hvað er spunnið í opinbera vefi 2015?“ var vefur Akraneskaupstaðar valinn besti vefur sveitarfélags. Fimmtudaginn 26. nóvember var tilkynnt  um niðurstöður vals dómnefndar, sem jafnframt byggir á umfangsmikilli úttekt á vefum opinberra stofnana annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri, veitti verðlaununum viðtöku á UT deginum, sem haldinn er af Innanríkisráðuneytinu í samstarfi við Skýrslutæknifélag Íslands.

Ársgamall vefur

Vefurinn, sem fór í loftið í október 2014, tók við af eldri vef sem var gangsettur í ársbyrjun 2008. Auknar kröfur urðu til þess að vefmálin voru endurskoðuð frá grunni og varð Stefna fyrir valinu til samstarfs. Viðmótshönnun og vefhönnun var í höndum hönnunardeildar Stefnu. Forritarar okkar sáu jafnframt um viðmótsforritun og nokkrar leikfléttur á bakvið tjöldin, en vefurinn er meðal annars tengdur við kerfi One Systems til birtingar á skjölum.

Þegar reynsla var komin á forsíðu og leiðakerfi nýja vefsins voru gerðar endurbætur að tveimur mánuðum liðnum. Aðrar breytingar og viðbætur á liðnu ári er bætt aðgengi í kjölfar forúttektar Sjá og ábendinga notenda. Með WAVE tólinu geta notendur sjálfir gert forúttekt á aðgengi m.t.t. lesturs skjálesara og sjónskertra. Um daginn settum við saman lista yfir fleiri gagnleg tól fyrir vefstjóra.

Gjöfult samstarf

Samstarfið við Akraneskaupstað hefur gengið með eindæmum vel. Þar skipta sköpum skýr og hispurslaus samskipti, stýrihópur sem vann að undirbúningi verkefnisins í samráði við ráðgjafa okkar hjá Stefnu. Verkefnin dag frá degi hafa verið í höndum Sædísar Alexíu, verkefnastjóra hjá Akraneskaupstað.

Vefur Akraneskaupstaðar var jafnframt tilnefndur til vefverðlauna SVEF 2014 fyrir besta opinbera vefinn, en áður hafði annars vefur úr okkar smiðju, Akureyri.is, hlotið verðlaun fyrir besta vef sveitarfélags 2011.

Við óskum öllum á Skaganum til hamingju með verðlaunin og hlökkum til frekara samstarfs. Af okkur er það annars að frétta að tveir glænýir vefir nýrra sveitarfélaga sem velja okkur til samstarfs eru væntanlegir í loftið á næstu vikum.

Vantar þig vef? Kíktu á hvað viðskiptavinir okkar segja um samstarfið og svo eru allir velkomnir að kíkja í kaffi til okkar í Kópavogi eða á Akureyri.