Fólk les ekki vefsíður, það skannar
22. nóvember 2023
Halla Hrund Skúladóttir

Deila

Fólk les ekki vefsíður, það skannar
Fólk les ekki vefsíður, það skannar


Svona skannar fólk

Til eru mörg þekkt skannmynstur. Þekktust eru svokölluð F-snið og lagkökusnið.


  • F-snið er dæmi um slæmt skannmynstur.
  • Lagkökusnið dæmi um gott skannmynstur.


Við getum auðveldað fólki með því að hanna efnið þannig að það ýti undir góða skönnun.


F-mynstrið

Fólk byrjar efst og til vinstri á síðunni og skannar textann út til hægri. Svo hoppar það aðeins neðar á síðuna og skannar út til hægri, þó ekki eins lengi og efst. Eftir því sem það fara neðar hafa þeir tilhneigingu til að skanna færri og færri orð í hverri línu og mynda þannig bókstafinn F.

Fólk les ekki texta staf fyrir staf, það skannar orð. Með innsýn inn í hegðun fólks við lestur á vef getum við hjálpað þeim að finna upplýsingar hratt og vel.


Hegðun fólks við netnotkun hefur mikið verið rannsökuð. Niðurstöður sýna að flest fólk heimsækir vefsíður með ákveðið erindi í huga sem það vill klára með lágmarks fyrirhöfn. Fólk vill skjót svör en ekki lesa ritgerðir um efnið.


Fólk skannar vefsíður í leit að upplýsingum sem það hefur áhuga á og stoppar ekki til að lesa texta nema það sé sannfært um að þar séu upplýsingarnar sem leitað er að. Fólk skannar með því að hoppa fram og tilbaka um síðurnar, hoppa yfir efni og fara til baka til að skanna aftur það sem það sleppti.


Þessi skannhegðun hefur mikið verið rannsökuð með augnskönnum sem geta fylgt því hvert fólk horfir.


Myndheimild: NNgroup.com

Fólk notar þessa aðferð þegar það er ekki nógu áhugasamt um efnið til að lesa hvert orð. Einnig þegar síður eru með stórum textabútum sem ekki eru brotnir upp með millifyrirsögnum, punktalistum, loftun eða öðru formi á textanum.

F-sniðið er óhentugt fyrir notendur sem og fyrir fyrirtækið sem vill koma upplýsingunum til skila. Notendur geta misst af mikilvægum upplýsingum einfaldlega vegna þess að þær birtast hægra megin á síðunni.

→ Gott snið á texta dregur úr neikvæðum áhrifum F-sniðsins.



 

Lagkökusnið

Þetta skannmynstur birtist þegar fólk skannar fyrirsagnir og millifyrirsagnir þangað til það finnur kafla sem vekur áhuga. Þá stoppar fólk og byrjar að lesa.


Myndheimild: NNgroup.com

→ Þetta er talin áhrifaríkasta leiðin fyrir notendur til að skanna síður.


Eða eins og það er orðað á vef Nielsen Norman group:

“Aside from reading almost every word, the layer-cake pattern is by far the most effective way in which users can scan pages.”


Svona les fólk

Myndheimild: UXplanet.org

Fólk les ekki texta staf fyrir staf eins og það gerir í upphafi lestrarkennslu. Með æfingunni fer heilinn að þekkja orðin af lögun þeirra og þá er nóg að horfa á orð eða orðhluta í örskamma stund til að vita hvað stendur þar. Augun hoppa svo áfram og jafnvel yfir orð og stoppa svo til að horfa aftur í smá stund. Heilinn fyllir inn í eyðurnar sem hoppað er yfir.


Þegar orð eru stutt og algeng á heilinn auðvelt með að fylla rétt inn í eyðurnar. Flókin og óalgeng orð er erfiðara að giska rétt á án þess að stoppa til að horfa á þau, sem hægir á lestri.


Að nota algeng orð flýtir fyrir lestri. Að forðast lagamál, tæknimál eða hvers konar sérfræðiorð flýtir fyrir lestri. Jafnvel fólk með sérfræðiþekkingu á efninu er fljótara að lesa og skilja texta sem skrifaður er með einföldum orðaforða.



 

Svona skrifum við góðan texta

Í bókinni Content Design eftir Sarah Winters er að finna mörg góð ráð við textaskrif og efnishönnun fyrir vef.


Lýsandi fyrirsagnir

Flestir notendur eru með markmið, eitthvað sem þeir vilja vita eða klára. Hjálpum þeim með því að gera fyrirsagnir lýsandi og markvissar. Titlar sem eru lýsandi fyrir aðgerðina virka oft betur heldur en nafnorð. Það er til dæmis munurinn á Tilkynna um breytt lögheimili og Lögheimili.


Mikilvægast efnið fremst (e. front-loading)

Þumalputtareglan er að 80% notenda er að leita að sömu 20% af upplýsingunum. Með rannsóknum getum við fundið út hvaða upplýsingar þetta eru.

Setjum þær efst á síðuna. Ekki láta meirihluta notenda skanna alla leið niður að óþörfu.

Settu mikilvægustu orðin framarlega í fyrirsagnir og millifyrirsagnir. Það auðveldar fólki að skanna upplýsingarnar á síðunni og finna fljótt kaflann sem það leitar að.


Hjálpum fólki í burtu

Hjálpum fólki sem er komið á rangan stað að átta sig fljótt. Á síðum þar sem fólk getur sótt um eitthvað er til dæmis mikilvægt að það átti sig fljótt á hvort það uppfylli skilyrðin. Fólk vill ekki eyða tíma í að sækja um eitthvað sem það hefur ekki rétt á.


Fjöldi smella

Fjöldi smella skiptir ekki eins miklu máli og margir halda. Meðan fólk telur sig vera að nálgast upplýsingarnar sem því vantar mun það ekki gefast upp eftir 3 smelli. Markmiðið er að hver smellur færi notandann nær markmiði sínu.


Millifyrirsagnir

Millifyrirsagnir ættu að segja sögu og hjálpa fólki að staðsetja sig. Þær ættu að skipta textanum upp á þann hátt að það auðveldi fólki að skanna síðuna og finna það sem það leitar að.


Stuttar málsgreinar

Stuttar málsgreinar er auðvelt að skilja. Ekki skrifa fleiri orð en þarf.


Einfalt mál

Að nota skýrt og einfalt mál er fljótlegasta leiðin til að fá aðra til að skilja. Einfaldar útskýringar draga ekki úr trúverðugleika.


Punktalistar

Punktalistar skera sig frá öðru efni og vekja þannig athygli. Gott er að nota punktalista til að draga fram aðalatriði í texta. 


Feitletrun

Feitletruð orð skera sig frá öðrum og augað leitar í það sem er frábrugðið. Ofnotkun þess veldur því að notandinn veit ekki hvert hann á að horfa. Feitletrun ætti að nota sparlega til að draga úr áreiti á notendur.


 

Heimildir 

  1. Winters, Sarah. 2017. Content Design. Content Design London, UK.
  2. Nielsen Norman Group website (20.okt. 2023)


Eftir Ingunn Fjóla 9. desember 2024
Hvað getur greint á milli tæknilausna og hugmynda sem ná flugi og þeirra sem brotlenda? Til að nýsköpun heppnist vel verði að halda áherslunni kyrfilega á notandann og þarfir hans.
Eftir Pétur Rúnar Guðnason 22. október 2024
Verkefnið Korter , þróað af Vistorku, Orkusetri, Geimstofunni og Stefnu, er bæði app og vefsíða sem gefur notendum yfirsýn yfir það svæði sem þeir komast á gangandi eða á hjóli innan fimmtán mínútna.
Eftir Róbert Freyr Jónsson 3. júní 2024
Fjarvinna og ferðalög Ég hef dundað mér í að flýja Íslenska veðráttu og heimsækja önnur lönd, ekki endilega til að skoða sérstaklega allt sem er í boði allstaðar eða taka þetta ferðalag sem eitthvað frí, heldur hef ég stefnt á að geta haldið áfram að vinna og vera í hlýlegra umhverfi um helgar og eftir vinnu á daginn. Þá þarf að huga að ýmsu.
Share by: