Annáll Stefnu 2023
2. janúar 2024
Björn Gíslason

Deila

Annáll Stefnu 2023
Annáll Stefnu 2023

Áramót eru jafnan góður tími til að fara yfir liðið ár og horfa til markmiða komandi árs.


Árið 2023 var Stefnu farsælt ár. Rekstur félagsins gekk vel og starfsfólki hélt áfram að fjölga á árinu með vaxandi verkefnastöðu. Nú í árslok störfuðu hjá félaginu 43 starfsmenn í 41stöðugildi og höfum við vaxið jafnt og þétt úr 16 stöðugildum fyrir 10 árum.


Árið var einnig 20 ára afmælisár félagsins og var því fagnað með afmælisboðum bæði norðan og sunnan heiða með viðskiptavinum og starfsfólki - sem og með skemmtilegri árshátíðarferð starfsmanna til Prag á haustdögum. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái 20 ára aldri - enda líftími fyrirtækja sífellt að styttast. Það er því ánægjulegt að fagna þessum tímamótum þegar Stefna er að ná fullorðinsaldri - og það við góða heilsu. Að sama skapi er gaman að segja frá því að fyrsti starfsmaður félagsins, Róbert Freyr Jónsson, sölustjórinn okkar, starfar enn hjá félaginu.


Eins og á fyrri árum hefur Stefna haldið áfram að þróast á árinu sem hugbúnaðar- og sérfræðifyrirtæki, en líkt og áður hefur ráðgjöf og sértæk hugbúnaðarþróun sífellt skipað sér stærri sess í starfsemi okkar. Þessi þróun sést vel í mörgum þeirra verkefna sem við tókumst á við á árinu.

Stafrænt Ísland

Vinna hélt áfram á árinu fyrir Stafrænt Ísland en Stefna hefur verið þátttakandi í þeirri vinnu frá því að hún fór af stað árið 2020. Markmið vinnunnar er að upplýsingar um opinbera þjónustu séu aðgengilegar á einum stað. Sérfræðingar Stefnu lögðu grunn að efnisstefnu Ísland.is og hafa á undanförnum mánuðum unnið að því hörðum höndum að innleiða fjölmargar stofnanir ríkisins inn á Ísland.is. Á meðal verkefna ársins má nefna Samgöngustofu, Tryggingastofnun, Náttúruhamfaratryggingu Íslands, Starfatorg og Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnaskertra.


Efnishönnun er stór hluti vinnunnar en þar er verið að greina þarfir notenda, hvers konar efni svarar þeim þörfum sem best og loks eftirfylgni og árangursmælingar. Þessi vinna er unnin í samstarfi við starfsfólk stofnana, starfsfólk Stafræns Íslands og önnur sérfræðingateymi.


Stafræn vegferð Heklu

Stafræn vegferð Heklu hefur haldið áfram á árinu þar sem unnið hefur verið í fjölmörgum sérlausnum fyrir félagið. Áhersla hefur verið á að auka þjónustu á mínu torgi (mínum síðum) til að efla þjónustu og létta á starfsfólki, með viðbótum þar sem viðskiptavinir geta afgreitt sig sjálfir. Tvö stór verkefni að auki eru í vinnslu og fara í loftið innan tíðar.


Kvasir lausnir

Kvasir lausnir, sem er félag um bílastæðalausnir í eigu Stefnu og Rafarnarins, hefur vaxið og dafnað á árinu. Ný bílastæði á fallega Snæfellsnesi hafa bæst í hópinn á árinu með góðum árangri. Þar náði landeigandi að margfalda veltu með okkar lausn. Svo eru mörg samtöl í gangi við viðskiptavini sem vilja slást í hópinn á nýju ári.


Rental Relay

Rental relay (RR) er kerfið sem er smíðað af og í eigu Stefnu, en það er millistykki bílaleiga og bílastæða. Þegar ökumaður greiðir ekki fyrir bílastæði sendir eigandi bílastæðisins upplýsingar inn í RR og kerfið skilar upplýsingunum áfram til bílaleiga og inn á samning viðskiptavina bílaleiga. Með þessu móti minnkar handavinna mjög mikið og bílaleigur fá upplýsingar mun fyrr. Margir þjónustuaðilar með bílastæði eru tengdir í dag sem og um 28 bílaleigur.


Ekill

Á árinu var unnið í nýju fjarnámskerfi fyrir ökuskólann Ekil, þar sem forritaður var nýr fram- og bakendi fyrir ökunám skólans. Nýja kerfið leysir af hólmi það sem fyrir var með það markmið að nútímavæða og bæta við möguleikum fyrir fleiri námsleiðum eins og meiraprófi, vinnuvélaréttindum og endurnýjun réttinda. Fyrsta fasa er lokið, en sá fasi snérist um að innleiða nám í almennu ökunámi og gera kerfið snjalltækjavænt.


ITS macros

Stefna forritaði nýtt app fyrir ITS Macros þar sem viðskiptavinir gátu skráð inn sínar upplýsingar og verið í samskiptum við ráðgjafa ITS. Sömuleiðis var unnin bakendi fyrir ráðgjafa ITS sem þeir nota til að þjónusta viðskiptavini. Þróunin hefur tekist vel til og hefur gjörbreytt utanumhaldi og þjónustu ITS við sína viðskiptavini.


Sveitarfélög

Stefna hefur löngum haft sterka stöðu meðal sveitarfélaga landsins og önnumst við heimasíður um ⅔ hluta allra sveitarfélaga á landinu. Á árinu voru settir nýir vefir í loftið fyrir ÞingeyjarsveitReykhólahreppFlóahreppSkagabyggðSeltjarnarnesSnæfellsbæ og Hrunamannahrepp. Á árinu var einnig sett í loftið sveitarfélagaapp sem var samstarfsverkefni nokkurra sveitarfélaga og setti Akureyrarbær sitt app í loftið á árinu.

Starfsmenn Stefnu tóku virkan þátt í viðburðum sveitarfélaga á árinu, þar með talið fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og vorum við með erindi á þemadegi stafrænna sveitarfélaga að Hlíðarenda.


Forritunarverkefni

Líkt og á undanförnum árum var unnið að mörgum forritunarverkefnum á árinu þar sem sérfræðingar Stefnu eru ýmist að skrifa nýjar lausnir fyrir viðskiptavini eða að þjónusta núverandi tölvukerfi þeirra. Sem dæmi um þessi verkefni má nefna vinnu við Bændakerfi Matvælaráðuneytisins og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, vinnu við nemendakerfi Háskóla Íslands, nýjar stafrænar lausnir fyrir Umhverfisstofnun og vinna við kerfi Orkuveitu Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt.


AI

Mikið hefur verið rætt og ritað um gervigreind á liðnu ári og hefur starfsfólk Stefnu gefið sér tíma til að skoða þær lausnir sem eru komnar fram með tilliti til hagnýtingar fyrir okkar vinnu sem og viðskiptavini. Þróunin er hröð og ljóst að hún mun leiða til verulegra breytinga og framleiðniaukningar á ákveðnum sviðum, og við munum áfram vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem hún getur skapað okkur.


Til gaman er hægt að skoða hér eina af niðurstöðum vinnudags okkar þar sem við vorum að prófa að láta gervigreind búa til auglýsingar.

Á sama stað er hægt að lesa bloggið okkar sem hefur verið virkt á árinu og efnistök fjölbreytt.


Vefsíðugerð

Vefsíðugerð skipar enn stóran sess í starfsemi okkar og meðal stærstu verkefna ársins voru nýjar síður fyrir SÁÁEpiendoSamtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, gönguleiðir Ferðamálastofu, Brynju leigufélagMinjastofnunFerrozink og Off to Iceland.


Mikil þróun hefur verið á undanförnum árum í framboði vefumsjónarkerfa og hefur þessi þróun haft áhrif á vöru- og þjónustuframboð Stefnu. Mikil vinna hefur verið unnin á árinu í þróun á næstu útgáfu Moya vefumsjónarkerfisins, sem við köllum Moya 2, sem mun verða tekið í notkun nú á fyrri hluta ársins 2024. Þar hefur verið lögð rík áhersla á breytingar á því hvernig unnið er með efni í kerfinu og það gert enn notendavænna en áður.


Sjálfsagt líta sumir á það svo að þróun á eigin vefumsjónarkerfi sé tímaskekkja, enda er Moyan að verða eitt af síðustu íslensku vefumsjónarkerfunum sem enn eru í þróun. Við teljum þó Moyuna enn eiga erindi á markaðinn enda fjölmargir vefir í kerfinu við góðan orðstýr notenda og teljum að tækifærin verði enn fleiri með tilkomu nýrrar útgáfu.


Samhliða þessu bjóðum við þó einnig upp á headless lausnir sem henta þörfum tiltekinna verkefna betur og höfum við haldið áfram að þróa það þjónustuframboð okkar á árinu.


Nú er árið 2024 hafið og hjá Stefnu horfum með eftirvæntingu til nýs árs enda fjölmörg spennandi verkefni í vinnslu og ný tækifæri á nýju ári sem við hlökkum til að takast á við með viðskiptavinum okkar. Kæru viðskiptavinir, starfsfólk og þið öll, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.


Eftir Ingunn Fjóla 9. desember 2024
Hvað getur greint á milli tæknilausna og hugmynda sem ná flugi og þeirra sem brotlenda? Til að nýsköpun heppnist vel verði að halda áherslunni kyrfilega á notandann og þarfir hans.
Eftir Pétur Rúnar Guðnason 22. október 2024
Verkefnið Korter , þróað af Vistorku, Orkusetri, Geimstofunni og Stefnu, er bæði app og vefsíða sem gefur notendum yfirsýn yfir það svæði sem þeir komast á gangandi eða á hjóli innan fimmtán mínútna.
Eftir Róbert Freyr Jónsson 3. júní 2024
Fjarvinna og ferðalög Ég hef dundað mér í að flýja Íslenska veðráttu og heimsækja önnur lönd, ekki endilega til að skoða sérstaklega allt sem er í boði allstaðar eða taka þetta ferðalag sem eitthvað frí, heldur hef ég stefnt á að geta haldið áfram að vinna og vera í hlýlegra umhverfi um helgar og eftir vinnu á daginn. Þá þarf að huga að ýmsu.
Share by: