Landspítali flytur á Ísland.is

Markmið
Markmiðið var að flytja vefinn á Ísland.is og nýta þjónustu Stafræns Íslands, hönnunarkerfi og efnisstefnu.
Fyrir hönd Stafræns Íslands vann Stefna náið með tengiliðum Landspítala við rannsóknir og greiningu, grisjun, hönnun, efnisvinnu og þýðingar á vefnum.
Góð samvinna sem byggir á trausti og heiðarlegum samskiptum er undirstaða góðrar niðurstöðu verkefnisins.
Tölfræði í upphafi verkefnis
Gamli vefurinn fékk um 1.500.000 heimsóknir á árinu 2024.
Vefurinn innihélt meðal annars:
- um 650 síður
- um 5000 pdf skjöl
- um 7000 fréttir



Rannsóknir
Í viðtölum sem tekin voru við þjónustuþega komu fram gagnlegar upplýsingar um notkun á vefnum og öðrum rásum sem Landspítali notar til að koma upplýsingum til sjúklinga.
Heimsóknir á vefinn voru greindar og allar fyrirspurnir í aðalnúmer spítalans á tveggja vikna tímabili voru skráðar og flokkaðar.
Tölfræðin gefur góðar upplýsingar um hvað fólk gerir á vefnum og viðtölin hjálpa okkur að skilja betur af hverju.
Rannsóknarfasi
- Viðtöl við þjónustuþega
- Greining á heimsóknatölfræði vefs
- Greining á innihaldi vefsvæðis
- Greining á fyrirspurnum í aðalnúmer spítalans
Efnisrýni
Vefurinn hafði verið í sama kerfi í fjölmörg ár og vaxið og bólgnað út eins og vefir hafa tilhneygingu til að gera.
Flutningar eru góður tímapunktur til að skilgreina aftur hlutverk vefsins (hvað, fyrir hvern, hvernig), fara í gegnum efnið og laga til í geymslunum.
Grisjun
- Úrelt efni fjarlægt
- Efni án ábyrgðaraðila fjarlægt
- Gamlar fréttir fjarlægðar
- Tvítekið efni fjarlægt
- Efni fyrir starfsfólk fært á innri vef


Hönnun efnis og leiðakerfis
Efni sem átti að halda sér á vefnum var flokkað og efnisgerðir (e. content types) skilgreindar. Snjallsímavænt viðmót var hannað fyrir algengar efnisgerðir svo sem deildir, námsleiðir og árlegar ráðstefnur.
Leiðakerfi var hannað til að veita yfirsýn, vera einfalt í notkun fyrir notendur vefsins og einfalt í vinnslu fyrir vefstjóra vefsins.
Efni var hannað til að útskýra það sem notendur þurfa að vita á skýran og einfaldan hátt, með orðum sem fólk notar. Áhersla var lögð á að koma í veg fyrir tvítekningu efnis og þar með óþarfa tvöfalt viðhald.

Útkoman
Nýr vefur Landspítala fór í loftið í október 2025.
Stefna kom að verkefninu með mikla reynslu, djúpa þekkingu og skýra sýn á framkvæmdina. Samstarfið var einstaklega þægilegt og faglegt, samskiptin ávallt góð og lausnamiðuð og fullkomið traust ríkti í samstarfinu frá upphafi til enda. Þeirra reynsla skipti miklu máli í jafn umfangsmiklu verkefni og flutningur ytri vefs Landspítala yfir á Ísland.is var.