Ótrúlegur árangur á einu ári
Þau fóru að aðstoða fólk við að bæta heilsuna og stofnuðu fyrirtækið ITS macros sem hefur hjálpað fjölmörgum Íslendingum við að efla heilsuna. Á þessum árum varð til mikil reynsla og þekking sem leiddi svo af sér krappa beygju fyrir tæpum tveimur árum.
Þá var tekin ákvörðun um að smíða viðamikið íslenskt heilsuapp, það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hugmyndin af Lifetrack varð til og í dag hafa þúsundir Íslendinga sótt appið og meðal þeirra eru heilu íþróttaliðin og vinnustaðirnir.



Reiknar út orkuþörf líkamans
„Þetta er bæði ótrúlegt en líka ekki, miðað við alla vinnuna að baki,“ segir Ingi Torfi aðspurður um árangurinn hingað til. Í Life Track er meðal annars hægt að reikna út orkuþörf líkamans og fylgjast með orkueyðslu og orkuneyslu.
„Við segjum að með appinu sértu með heilsuna í vasanum, hvort sem þú vilt léttast, byggja upp vöðva eða bæta orku þá er þetta gott tæki. Mataræðið er einn hluti af appinu en heilsan er svo að sjálfsögðu flóknara fyrirbæri.“
Í Life Track eru því líka æfingar, hugleiðsla, kvöldsögur og fleira sem stuðlar að heilsusamlegum lífsstíl.
Eitt að vita, annað að gera
Ingi Torfi segir mikilvægt að horfa á heildarmyndina. „Það vita flestir hvað er gott fyrir heilsuna og hvað ekki. En það virðist ekki hafa verið nóg og þannig hefur Life Track virkað sem millistykki á milli þess sem þú veist og þess sem þú gerir í daglega lífinu.“
Þau hjónin vildu gera eitt heilsuapp í stað þeirra mörgu sem fólk notar í dag. Það má segja að þetta sé íslenskt MyfitnessPal sem margir nota nema fyrir íslenskan markað sérstaklega. „Við viljum meina að við höfum margt annað fram yfir það app.“
Að læra að leyfa sér
Stefna þróaði appið ásamt Inga og Lindu.
„Með samstarfinu við Stefnu höfum við náð að gera einfalt app sem hjálpar fólki samt á margvíslegan hátt. Til dæmis bjuggum við til heilar máltíðir og meira að segja heilu dagana þar sem þú þarft ekkert að vigta matinn. Það er hægt að leita að máltíð eftir æfingu, leyfa-sér máltíðir um helgar og fleira.
Við viljum að fólk læri að leyfa sér, það þarf að vera jafnvægi í þessu.“
Héngu í matvörubúðinni
Kjarni appsins er viðamikill matargrunnur og reiknivél fyrir orkuþörf. Matargrunnurinn telur nú tæplega 20 þúsund strikamerki. Ingi segir þá vinnu hafa verið nauðsynlega.
„Helsti þröskuldurinn var að þessi gagnagrunnur var i raun ekki til á Íslandi nema í afar takmörkuðu magni. Þá þurfti hreinlega að bretta upp ermar og byrja.”
Á meðan Stefna þróaði tæknilausnina á bak við matargrunninn fór Ingi ásamt fjölskyldu í matvörubúðir og byrjaði að skanna inn vörumerki. „Við Linda héngum mikið í búðunum hérna á Akureyri og drógum börnin okkar með sem stóðu sig eins og hetjur. Þetta tók ansi langan tíma!”
Næringarfræði 101
Að gera reiknivél fyrir orkuþörf var annað metnaðarfullt verkefni að leysa. „Þú þarft að vera í hitaeiningahalla til að léttast og þá þarftu að vita hvað þú átt að borða mikið. Lögmálin sem segja til um orku inn og orku út eru ekkert að fara að breytast. Sama hvaða kúr er vinsæll, sama hvað er að gerast í kringum okkur.“
Við þróunina var leitað til næringarfræðinga en draumur Inga Torfa var að koma næringarfræði 101 inn á hvert heimili. „Til að það gerðist þyrfti appið að vera einfalt og auðvelda fólki lífið en ekki flækja það og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fólki í heilbrigðisgeiranum þannig að þetta virðist vera að takast hjá okkur.“
Stjarnan og Þór með Life Track
Lið Þórs í fótbolta byrjaði að nota Life Track fyrir síðasta tímabil. Liðið var þá í 10 sæti í fyrstu deild en lauk tímabilinu með sigri í deildinni. Handboltalið Þórs fylgdi á eftir og fór einnig upp um deild í vor. Einnig hefur KA hafið samstarf með LifeTrack og meistaraflokkur Stjörnunnar í körfunni.
„Þetta er skemmtilegur vinkill finnst mér. Við erum í viðræðum við fleiri lið og svo er appið notað hjá ÍAK, íslenska einkaþjálfaraskólanum, sem eru góð meðmæli og við erum mjög stolt af.“
Vinnustaðir hafa líka óskað eftir aðgangi að appinu fyrir sitt starfsfólk. „Það er gaman að segja frá því að Stefna er fyrsti Life Track vottaði vinnustaðurinn á Íslandi. Það er virkilega gaman að komast á þann stað með þeim, enda væri ekkert af þessu til án þeirra frábæru vinnu.“