10 atriði til að bæta á vefnum þínum

28. júní 2023
Pétur Rúnar
Notaðu þennan lista til að bæta vefinn þinn - strax!

1. Vandaðir hlekkir skapa betri upplifun

Við höfum séð fjöldamörg dæmi þess að hlekkir á vefjum séu merktir „hér“, „nánar“ eða „sækja“. Slíka hlekki ætti að forðast að nota, því það bætir aðgengi og þar með upplifun allra notenda þegar hlekkirnir eru merktir því sem þeir birta.

Dæmi um þetta gæti verið að segja frekar „Sækja ársskýrslu félagsins“ frekar en að setja hlekk með „sækja má ársskýrslu félagsins hér“.

Vandaðir hlekkir leiða notandann áfram með markvissum hætti og eru:

 • betri fyrir skjálesara (blinda og sjónskerta)
 • lesblinda lesendur og
 • hjálpa til í leitarvélabestun.

2. Millifyrirsagnir grípa athygli

Rétt og viðeigandi notkun á millifyrirsögnum er mikilvæg til að bæta upplifun lesenda því það hjálpar þeim að skima síður og koma auga á það sem máli skiptir. Notaðu mest viðeigandi orðin, bæði fyrir lesendur og leitarvélar sem horfa mjög til þess hvaða orð og orðasamsetningar eru í millifyrirsögnum.

H1 er alltaf aðalfyrirsögnin á hverri síðu, svo er H2 (heading 2) og einstaka sinnum H3 (heading 3) í undirfyrirsagnir.

Fólk les ekki síðuna frá byrjun til enda, það skannar í leit að svörum. Millifyrirsagnir eru áberandi og hjálpa þannig fólki að átta sig hratt á efni síðunnar.

Sniðug aðferð til að grípa athyglina er að varpa fram spurningu(m) í millifyrirsögn(um) og svo kemur svarið í því sem á eftir fylgir.

Millifyrirsagnir leiða mig áfram

Þetta virkar þannig að notendur lesa spurninguna í fyrirsögn og svo svarið í textanum þar fyrir neðan!

Hafðu í huga að setja mikilvægustu orðin (lykilorð) fremst í millifyrirsagnir, því framar - því betra. Hér sérðu myndrænt hvernig augu skima yfir vefsíðu/texta (heimild: uxplanet):


3. Myndefni sem passar

Miða má við að ein mynd fylgir hverri síðu, það styrkir mjög vef að myndir fylgi efninu. Þetta er oftar en ekki auðvelt, til dæmis fyrir „áhugaverðir staðir“ eða „styttur bæjarins“, en flóknara í öðrum tilvikum; „sorphirða“ eða „þjónusta við fatlaða“. Það er því misjafnt eftir efni hverrar síðu hversu stórt verkefni það er að útbúa eða finna viðeigandi myndefni.

Mikilvægt er að nýta birtuna og grænkuna á sumrin til að taka sem mest af myndefni, þó má líka benda á að besta myndefnið er ekki endilega eingöngu af byggingum, heldur mannlífi í bland. Þessu má ná fram með því að sýna ekki andlit, heldur baksvip eða hendur. Það eru til mörg góð trix í bókinni til að taka myndir sem geta dugað ekki aðeins næstu mánuði heldur árin.

Hverju bætir myndefnið við?

Hafðu í huga að notendur eru að leita að upplýsingum, þótt myndin geti lífgað upp á síðuna þá á hún ekki að bæta upp fyrir að textinn sé langur eða torlesinn.


4. Hnappar sem leggja viðeigandi áherslu

Hver vefur þarf að eiga að minnsta kosti eitt snið fyrir hnappa - sem passar við heildarbrag hönnunar. Stundum höfum við einnig útbúið fleiri snið fyrir hnappa, svo nota megi sérstaka áhersluhnappa eða aðra sem hafa minna vægi.

Dæmi um hnappa sem leiða notandann áfram á milli síðna getur verið:

Skoða verkefni okkar Hafa samband Óska eftir tilboði

En í öðrum tilvikum er aðeins einn hnappur sem kallar á athygli og leiðir notandann yfir á þá aðgerð sem við viljum að sé framkvæmd:

Senda fyrirspurn

Svona virkar það!


5. Gardínur fyrir mikið magn texta

Þegar óhjákvæmilegt er að magn texta sé mikið er gott að nýta sér þau verkfæri sem standa til boða. Þau eru helst þessi:

 • Skýrar millifyrirsagnir til að brjóta upp textaklausur.
 • Í stað samfellds texta er gott að setja helstu atriði í lista, svipað og gert er í þessari framsetningu hér.
 • Nýta má gardínur (sem opnast og lokast) til að notendur geti séð yfirlit efnisins og smellt á það sem vekur áhuga.

Hið síðastnefnda, hinar svokölluðu gardínur (plús/mínus-virkni) hefur komið mjög vel út, ekki síst þar sem farsímaskjáir höndla slíkt sérstaklega vel. Ritstjóri hefur fullt vald til að útbúa gardínur og í sumum tilvikum höfum við einnig gert mögulegt að gardínur séu innan gardína.

Helsti ókosturinn við þessa virkni er að þegar komið er inn á síðuna er ekki alltaf augljóst hvar efnið er að finna, sér í lagi þegar komið er úr leitarvélum (öll orð innan gardína gúgglast fínt, en gardínur opnast ekki sjálfkrafa).


6. Einfaldari forsíða

Reglulega ætti að endurskoða uppröðun forsíðu og áhersluatriðin þar. Jafnvel þótt vægi forsíðu sé ekki alltaf mikið, því:

 • fjöldi notenda kemur beint inn á undirsíður (lendingarsíður) af Google.
 • hlutfall notenda skoðar ekkert það sem er á forsíðu og fer beint í að „leysa verkefni“, þ.e.a.s. að sækja sér viðeigandi upplýsingar af undirsíðum

Forsíðan ætti engu að síður að endurspegla áherslurnar og helst þarf að vera hægt að komast í alla hluta vefjarins (allar helstu undirsíður) án þess að nota leiðakerfið, sérstaklega fyrir góða upplifun farsímanotenda.


7. Yfirfara hvernig vefurinn lítur út í Google

Skoðaðu vefinn þinn í Google. Það geturðu gert með eftirtöldum aðferðum:

 • Opna Google og rita inn lénið þitt með „site:“ fyrir framan, til dæmis „site:stefna.is“
 • Þannig sérðu hvaða síður eru vistaðar í leitargrunninum.
 • Með því að tengja vefinn inn á Google Search Console geturðu stýrt því hvaða síður eru sýnileg og jafnvel óskað eftir að t ilteknum síðum sé eytt úr grunninum.
 • Með því að nýta "No index" í vefumsjónarkerfinu getur þú handvalið síður sem eiga ekki að birtast í leitargrunninum.
 • Með því að nýta SEO-flipann í veftrénu (fyrir tiltekna síðu) geturðu stýrt því hvaða titil og lýsingu hver síða hefur (title og meta description).

8. Hætta notkun á PDF skjölum

Einföld og fljótleg leið til að koma gögnum inn á vefinn getur verið að forvinna gögn í Word eða Excel og varpa þeim í PDF skjal til að birta á vefnum.

Þessi leið er mjög einföld fyrir ritstjórann en hún flækir málin fyrir notendur.

 • Til að bæta upplifun notenda skaltu lágmarka notkun á PDF skjölum, helst hætta alfarið að nota þau.

Helstu ókostir við PDF skjöl:

 • Óþægileg fyrir farsímaskjái, notendur þurfa að hlaða niður skjali og svo passar skjalið ekki á skjáinn (engin skölun).
 • Getur reynst flókið að viðhalda PDF skjölum því það er ekki alltaf þægilegt að skipta þeim út, eldri skrár eiga það til að hanga inni í Google leitarniðurstöðum.
 • Lesvélar meðhöndla PDF skjöl með ólíkum hætti, skjölin hindra því aðgengi sjónskertra, blindra og annarra sem nýta sér sértæka tækni til að lesa vefinn (t.d. stækka letur).

9. Hvar erum við? Hvenær er opið

Er ekki örugglega skýrt á vefnum þínum hvar starfsemin er og hvenær er opið?

Símanúmer og netfang ætti alltaf að vera sýnilegt (á öllum síðum) og helst ætti að koma fram við netfangið hvenær notendur mega vænta þess að fyrirspurnum sé svarað.

Mikilvægt er að opnunartímar séu sérstaklega sýnilegir fyrir notendur sem koma inn á farsíma.


10. Einfaldar notendaprófanir

Notendaprófanir þurfa ekki að vera íþyngjandi eða flóknar. Það getur skilað miklum árangri að fá 3-4 einstaklinga til að prófa fyrirfram skilgreindar aðgerðir á vefnum. Lykilatriði er að byrja á einföldum verkefnum og smám saman þyngja úrlausnina. Með því að horfa yfir öxlina á notendum er hægt að ýta þeim í rétta átt ef þörf er á (svo hægt sé að komast áfram í verkefninu) en aðalatriðið er að skapa þægilegt og rólegt umhverfi svo notendur upplifi ekki að það sé pressa á að finna „réttu leiðina“.

Nokkur góð ráð fyrir notendaprófanir:

 • Ekki byrja á að skoða vefinn, notendur byrja alltaf á verkefni.
 • Byrja á einföldu verkefni, til dæmis finna símanúmer eða heimilisfang.
 • Skilgreina 3-4 verkefni sem skipta máli, eins og til dæmis bóka ferð, finna aldur barna við leikskólavist eða tiltekna vöru.
 • Skapa rólegt og afslappað umhverfi, leggja áherslu á að það sé engin ein rétt leið til að leysa úr verkefnunum.
 • Tala opinskátt um að verkefnið sé að bæta vefinn út frá því sem er flóknast á honum.

Vilt þú fara í einhver af þessum verkefnum með okkar aðstoð eða fá nánari upplýsingar um þjónustu okkar eins og hönnun, forritun, ráðgjöf og efnishönnun? Heyrðu í okkur í 464 8700 eða sendu línu á radgjof@stefna.is.