Hugað að persónuvernd

25. maí 2018
Róbert Freyr
Föstudaginn 25. maí tekur gildi ný persónuverndarlöggjöf í Evrópu sem felur í sér aukin réttindi notenda og er þá krafa að upplýsa notendur um hvaða upplýsingum er safnað og af hverju.

Föstudaginn 25. maí tekur gildi ný persónuverndarlöggjöf í Evrópu sem felur í sér aukin réttindi notenda og er þá krafa að upplýsa notendur um hvaða upplýsingum er safnað og af hverju. Fyrir söfnun persónuuplýsinga þarf lögmæta ástæðu t.d. samþykki. Við höfum því bætt við virkni í vefumsjónarkerfi okkar til að upplýsa notendur betur.

Rétt er að taka fram að hin nýja löggjöf hefur ekki verið staðfest af íslenskum löggjafa og tekur því strangt tiltekið ekki gildi á Íslandi strax.

En hverju höfum við bætt við í Moya?

„Samþykkir þú kökur vafrans?“
Nú er innbyggður í Moya svokallaður vafrakökuborði (cookie banner) sem ritstjórar geta virkjað. Hann kemur með forhönnuðu útliti og má virkja undir stillingum. Nauðsynlegt er að hafa slíkan borða ef nýta á tölfræðigreiningartól á borð við Google Analytics eða ef boðið er upp á deilingar á samfélagsmiðla. Við mælum með að sett sé fram persónuverndarstefna á vefsíðunni ykkar og stefna um virkni á vafrakökum ef við á.
Nánari leiðbeiningar um notkun á nýja borðanum og persónuverndarstefnu.

Samþykki í eyðublöðum
Til að upplýsa notendur upplýsingasöfnun, ástæður hennar og afla samþykki höfum við bætt við samþykktarmöguleika í eyðublöðin. Þar er hægt að skrifa um ástæður og notkun á upplýsingum ásamt því að fá samþykki. Þennan valmöguleika er að finna í eyðublöðum undir „Ýmislegt“ og heitir hann „Skilmálar“, honum þarf að bæta honum við öll eyðublöð sem safna persónuupplýsingum (það gerist ekki sjálfkrafa).
 

Notendaskilmálar Moya

Við innskráningu í Moya þurfa allir innskráðir notendur nú að samþykkja nýja notandaskilmála en þeim er ætlað að einfalda og skýra betur þær upplýsingar sem safnað er um notendur ásamt hlutverkum Stefnu annars vegar og umsjónaraðilum (ritstjóra) vefsíðunnar hins vegar.

Við höfum útbúið nýjan vinnslusamning sem ætlað er að skýra betur hvaða upplýsingum vefumsjónarkerfið Moya safnar, hvers vegna og hvað er gert við þær. Hægt er að skoða drög að honum en hann verður sendur út til samþykktar síðar.

Hefurðu spurningar?

Þér er velkomið að hafa samband við okkur á hjalp@stefna.is ef þú óskar eftir frekari upplýsingum þessa eða aðra þjónustu okkar.