Nitty gritty: alt og title á myndum (ha?)

01. október 2015
Stefna Ehf
Ert þú að merkja myndirnar þínar rétt með notkun alt og title? Kíkjum á það!

Ert þú að merkja myndirnar þínar rétt með notkun alt og title? Kíkjum á það!

Eitt af mikilvægustu hlutverkum vefstjóra, vefritstjóra og allra sem setja inn efni á vefinn þinn er að stilla lýsigögnin rétt. Það þýðir að heading (h1, h2 o.s.frv.) ætti að nota á viðeigandi hátt (og í viðeigandi hófi), lýsigögn í titli (<title>) síðunnar og META lýsing (description) ætti að vera með réttum áherslum og auðvitað flæði valmyndar og texta allt saman til fyrirmyndar.

Eitt af því sem valdið hefur ruglingi er að á myndir er hægt að stilla jafnt alt-texta og title-texta. En hver er munurinn, til hvers er þetta eiginlega, hvaða hlutverk hafa þessi lýsigögn og bara svo margar spurningar en svo fátt um svör!

Google hefur gefið út að í þeirra viðleitni til að skilja myndina (og merkja hana viðeigandi lykilorðum) sé fyrst og fremst horft til alt textans. Hlutverk alt textans er að lýsa myndinni fyrir þeim sem annað hvort geta ekki séð myndina (blindir, sjónskertir, daprar tengingar) eða vilja ekki sjá myndir (slökkva á myndbirtingum í stillingum vafrans). Alt texti er því í raun rituð útgáfa af því sem þú myndir segja upphátt um myndina við einhvern sem ekki sér hana („Api með banana“).

Title aftur á móti er texti sem birtist notendum þegar músin er færð yfir. Hún virkar því meira eins og myndatexti („Apanum Chuck finnst bananar greinilega góðir“).

Tökum dæmi af mynd úr Hallgrímskirkju af fullum regnboga yfir höfuðborginni (sem við keyptum af Shutterstock).

Regnbogi yfir Reykjavík

Lýsigögn myndarinnar væri einfaldlega „Regnbogi yfir Reykjavík“ og því er það í alt. Stutt, hnitmiðað og með upplýsingagildi fyrir þá sem ekki sjá myndina. Myndatextinn (sem ritaður er í title) er „Reykjavík, höfuðborg Íslands, séð úr turni Hallgrímskirkju“, því augljóslega sér sá sem horfir á myndina að regnbogi er á henni (og því þarf ekki að taka það fram). Fyrir þann sem ekki sér myndina skiptir það minna máli hvort Reykjavík er höfuðborgin eða ekki.

Fyrir leitarvélar skiptir nafn myndarinnar (skráarnafnið sjálft) ekki síður máli, en það er í þessu tilviki reykjavik_rainbow_sm.jpg. Á myndinni er svo líka hlekkur í stærri útgáfu, sem leitarvélin fylgist líka með.

Í stuttu máli:

  • alt - lýsigögn myndarinnar, stutt, hnitmiðað, kjarni þess sem er á myndinni. Fyllið alltaf út í (eða skiljið eftir tómt fyrir myndir sem engu máli skipta (en íhugið að sleppa þeim!)).
  • title - myndatextinn, hvað viltu segja sem bætir við það sem ég get þegar séð á myndinni?

Alla jafna ætti að forðast að hafa nákvæmlega sama texta í alt og title.

Vantar þig myndir, á Pexels getur þú sótt myndir og notað á vefinn þinn að vild (án endurgjalds).

Innblásið af pistli Ann Smarty grein á SearchEngineJournal.com.