Þegar nytsamleg virkni #missirMerkinguSína

03. október 2013
Stefna Ehf
Myllumerkið hefur aldrei verið vinsælla.

Myllumerkið hefur aldrei verið vinsælla.

Eftir að Twitter reið á vaðið, fyrstur samfélagsmiðla, með svokallaða #hashtag* virkni árið 2009 hafa aðrir samfélagsmiðlar fylgt í kjölfarið, þar á meðal Instagram, Flickr, Tumblr, Facebook og Google+ . Nú er þessi notkun orðin svo útbreidd og viðurkennd að Google tilkynnti fyrir viku síðan að Google leitarniðurstöður myndu nú sýna #hashtaggaðar færslur frá Google+ samhliða hefðbundnum leitarniðurstöðum.

Þessi þróun er áhugaverð í ljósi þess að margir notendur samfélagsmiðlanna virðast ekki vilja tileinka sér tilætlaða notkun þessarar virkni, sem er að merkja ákveðnar umræður með lýsandi #hashtaggi svo hægt sé að kalla fram lista af færslum um viðkomandi málefni.

Margir notendur virðast fara offörum í myllunotkun og hashtagga heilu setningarnar til að krydda stöðufærslurnar sínar, öðrum notendum til gleði og gremju.  #hvaðErMáliðMeðÖllÞessiHashTags  #ÞettaErFyndiðKomment  #ÞettaLíka

Meðfylgjandi myndband hefur farið eins og stórslysafrétt um samfélagsmiðlana síðustu daga og segir allt sem segja þarf um þróunina í þessum málum.

Að sjálfsögðu er fólki frjálst að tjá sig hvernig sem þeim sýnist á samfélagsmiðlunum, það er nú það skemmtilega við þá, en fyrir þá sem eru áhugasamir um ‘rétta’ notkun hashtagga er hér góð grein frá Twitter með gagnlegum upplýsingum.

 

*Stefna biðst afsökunar á því að notast ekki eingöngu við ástkæra ilhýra málið.