Verkfærakista vefstjórans

18. nóvember 2015
Stefna Ehf
Samantekt á nokkrum verkfærum sem geta gert vefinn þinn betri og létt þér lífið!

Samantekt á nokkrum verkfærum sem geta gert vefinn þinn betri og létt þér lífið!

Hér er samantekt á nokkrum verkfærum sem geta gert vefinn þinn betri og létt þér lífið. Hefurðu einhverju við að bæta? Láttu okkur vita og við bætum við listann.

Er vefurinn minn nógu góður?

Þú færð skýra yfirsýn (almenns eðlis) á nokkrum sekúndum með Website Grader. Nokkuð niðursoðið en getur þó hjálpað til að fá almenna yfirsýn sem dregur fram aðalatriðin. Með GTMetrix má fá samantekt á greiningu Google (sjá hér fyrir neðan) og YSlow, sem er stórsnjallt og þægilegt.

Hvað segir Google?

Google vilja aðstoða þig við að bæta vefsíðuna þína. Með PageSpeed Insights er einfalt að sjá hvað má bæta. Einnig má ekki vanmeta mikilvægi þess að hafa Google Analytics og Google Webmaster Tools virk, en umfjöllun um kosti þeirra og mikilvægi rúmast þó tæplega í svona samantekt.

Finna brotna hlekki

Check My Links er viðbót við Google Chrome vafrann sem skannar síður og finnur brotna hlekki. Slíkir hlekkir eru ekki aðeins til óþurftar fyrir notendur heldur er það skaðlegt gagnvart leitarvélabestun. Þessi viðbót leitar ekki á öllum vefnum, heldur eingöngu síðunni sem er opin hverju sinni.

Screaming Frog SEO Spider er forrit í Windows, Mac eða Ubuntu sem sækir allan vefinn þinn (500 síður í fríu útgáfunni, £99 ársleyfi fyrir eina tölvu). Veitir frábært yfirlit lýsigagna, hlekkja, heading notkunar, myndastærða og í raun alls efnis á vefnum. Mac notendur geta reynda líka sótt Integrity, sem horfir eingöngu á brotna hlekki.

Skoða stöðu gagnvart SEO

Með SEO Report Card má kanna stöðuna gagnvart SEO (leitarvélabestun). Fjölmörg önnur tól eru með fría analísu en hvetja mjög til áskriftar og vísum við ekki í þau hér að sinni.

Tvöfalt efni

Með Siteliner er einfalt að finna brotna hlekki og tvöfalt efni á allt að 250 síðum. Þegar sama efni er á mörgum síðum getur það dregið úr mikilvægi þess við forgangsröðun leitarvéla.

Til að telja fjölda stafa og síðna er gott að nota WordCounter tólið, einfalt og þægilegt.

Er aðgengi í lagi?

Með WAVE tólinu (einnig fáanlegt sem viðbót í vafra) getur þú fengið yfirlit stöðu aðgengismála á vefnum þínum. Þar eru ábendingar um notkun á heading, lýsigögnum og fleira. Þú getur líka skoðað hvernig vefurinn þinn lítur út í farsímum með notkun „Device Mode & Mobile Emulation“ sem er innbyggt í Google Chrome vafrann.

Vantar þig myndir?

Þú getur sótt ókeypis myndir til að nota á vefinn þinn á Pexels eða Pixabay, báðar síðurnar birta að vísu „sponsored“ niðurstöður við hlið þess sem er ókeypis.

Ef þig vantar fleiri myndir er hægt að finna mikið magn á vefsíðu Shutterstock en þar þarf að kaupa áskrift eða stakar myndir svo hægt sé að hlaða þeim niður. 

Viltu búa til bannera?

Með Canva tólinu getur þú sniðið myndina til, skrifað inn á hana eða skeytt saman myndum. Frítt að nota, en þó er nokkur áhersla í myndaleit á keyptar myndir (yfirleitt kosta þær $1).

Léttari (en jafngóðar) myndir

Með kraken.io má þjappa myndum án þess að gæði tapist nema óverulega. Slíkt er þó alltaf matsatriði. Hægt er að nýta sér þjónustu kraken.io á vefnum þeirra frítt (ótakmarkað, takmarkað við myndir upp að 1MB).

Loks getum við mælt með afbragðs grein frá John Clark um áhrifamátt „META description“ lýsigagna fyrir vefsíðu (skrifuð 2013, uppfærð haust 2015).