Bætt yfirlit í veftré

29. apríl 2021
Pétur Rúnar
Með nýjung í Moya sérð þú á fljótlegan hátt hvaða lýsigögn hafa verið sett við síður í veftrénu.

Við höfum nú innleitt nýjung í vefumsjónarkerfið okkar, Moya, sem auðveldar vefstjóra að rýna hvaða lýsigögn hafa verið rituð inn eða sett á síðurnar í veftrénu.

Útbúinn var sér dálkur, SEO (search engine optimization), með upplýsingunum. Jafnvel þótt titill dálksins vísi til leitarvélabestunar getur uppsetning á þessum gögnum líka nýst fyrir deilingu á samfélagsmiðla og til að gera vefinn notendavænni heilt yfir.

Táknmyndirnar sem birtast í dálkinum segja til um hvort búið sé að stilla:

  • Mynd fyrir deilingu á samfélagsmiðla
  • META lýsingu
  • Sérskrifaðan titil

Með því að færa músina yfir táknmyndirnar er hægt að sjá hvað hver þeirra táknar.

Músin færð yfir

Til að skilja betur þörfina á hverri þessara stillinga er hér kafað aðeins dýpra ofan í þýðingu og mikilvægi hvers atriðis:

Mynd fyrir deilingu á samfélagsmiðla

Þegar mynd er deilt á Facebook leita Facebook-kerfið fyrst að þessari mynd, sem er hægt að setja á handvirkt úr veftrénu. Þetta er myndin sem birtist notendum inni á Facebook þegar viðkomandi slóð á vefnum þínum er deilt þangað inn. Myndin er því ekki sýnileg á vefnum sjálfum (nema þú setjir hana líka inn á síðuna sjálfa).

Athugið að ef búið er að deila síðunni einu sinni á Facebook gæti gömul útgáfa enn verið í flýtiminni Facebook (kerfið sækir ekki alltaf nýjustu útgáfuna). Ef þú vilt þvinga Facebook til að uppfæra gögn fyrir deilingu ferðu inn á https://developers.facebook.com/tools/debug/ þar sem velja má "Scrape Again" til að sækja nýjustu gögnin af vefnum þínum.

META lýsing

Meta description er texti sem er ekki sýnilegur á vefnum þínum en fer inn í kóða síðunnar. Þennan texta notar Google leitarvélin alla jafna (nema hún ákveði annað) sem stutta textann við leitarniðurstöðurnar. Með þessum hætti getur þú því tekið stjórnina á því hvernig viðkomandi síða á vefnum þínum birtist í Google leitarniðurstöðum. Athugið að í reitinn á að setja samfelldan texta, ekki upptalningu á lykilorðum. Markmiðið er að skrifa samfelldan texta sem kemur sem flestum af þínum lykilorðum á framfæri.

Sérskrifaður titill

Rétt eins og lýsingin hér fyrir ofan er sérskrifaður titill fyrst og fremst ætlaður leitarvélum. Þessi titill er þó einnig sýnilegur notendum í flipa vafrans (browser tab) og er notaður ef notandanum skyldi detta í hug að setja síðuna þína í bókamerki í vafranum.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um sérskrifaðan titil og META lýsingu í leitarniðurstöðum:

Leitarniðurstöður í Google

Viltu bæta vefinn þinn?

Kíktu líka á pistilinn okkar um vorverkin á vefnum þínum.