Ríkiskaup velja Stefnu í nýjan vef stofnunarinnar

06. júní 2018
Pétur Rúnar
Í kjölfar opinnar verðfyrirspurnar þar sem fjögur fyrirtæki tóku þátt hlaut tilboð Stefnu flest stig þar sem metið var verð, tímaáætlun, reynsla og eitt verkefni frá hverjum aðila.

Í kjölfar opinnar verðfyrirspurnar þar sem fjögur fyrirtæki tóku þátt hlaut tilboð Stefnu flest stig þar sem metið var verð, tímaáætlun, reynsla og eitt verkefni frá hverjum aðila.

Vefur Ríkiskaupa birtir auglýsingar fyrir útboð, opnun tilboða og niðurstöðu útboða, þá eru á vefnum ítarlegar upplýsingar um þá rammasamninga sem gerðir hafa verið auk eigna sem ríkið auglýsir til sölu. Meginhlutverk Ríkiskaupa er að stuðla að sem mestri hagkvæmni í öflun aðfanga hjá ríkinu með áherslu á virka samkeppni, jafnræði og nýsköpun.

Yfir 30 sveitarfélög og 20 stofnanir nýta sér þjónustu fyrirtækisins, en í úttektinni „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ voru 5 af 6 efstu sveitarfélögunum einmitt úr hópi viðskiptavina Stefnu. Með nýlegum samningum við Borgarbyggð, Kjósahrepp, Grundarfjarðarbæ, Rangárþing eystra, sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis, sveitarfélagið Voga og Húnavatnshrepp hefur Stefna mikla sérstöðu í þjónustu við sveitarfélög og opinberar stofnanir.

Meðal nýlegra verkefna má nefna vefi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Ísafjarðarbæjar, Háskólans á Akureyri og Hafrannsóknastofnunar.

Stefna er hugbúnaðarhús og vefstofa sem sérhæfir sig í ​uppsetningu á vefsíðum, vefhönnun, ráðgjöf og smíði upplýsingakerfa fyrir vefi​. Stefna er með starfsemi á Akureyri og í Kópavogi, er með yfir 600 viðskiptavini og yfir 1000 vefi í Moya vefumsjónarkerfinu. Starfsfólk telur nú rúmlega 25 en fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess 2003 á Akureyri.