Stefna 20 ára - frá einum og upp í 40 starfsmenn

12. maí 2023
Róbert Freyr

Mánuðina áður en Stefna varð til höfðu Matthías og Róbert kynnst í gegnum tölvubras. Sá fyrrnefndi vann þá hjá tölvudeild Skýrr og sá síðarnefndi við verslunarstjórn hjá Radíónaust.

Einn dag fyrri part 2003 voru þeir báðir að velta fyrir sér lífinu og tilverunni, höfðu náð vel saman jafnt í vinnu sem vináttu og var þá borin upp spurningin sem margir hafa velt fyrir sér í gegnum tíðina: „eigum við ekki að gera eitthvað skemmtilegt saman og stofna fyrirtæki?“.

Fyrstu dagarnir

Eftir stofnun Stefnu var Róbert eini starfsmaðurinn. Rekin var tölvuþjónusta og ætlunin að reka LAN setrið „3D Sport“ og tölvuskóla. Starfsemin var í Foldu húsinu á Akureyri, sem stóð þar sem Glerártorg er nú. Tölvurnar voru settar saman á staðnum og var ætlunin að nýta aðstöðuna á daginn fyrir námskeið og á kvöldin fyrir leikjaspilara. En af öðrum verkefnum má nefna viðgerð á þakinu, málningarvinnu og var húsnæðið tekið í gegn til að hægt væri að vera þar með verslun og skóla á neðri hæð.

Þegar Matthías var einnig kominn til starfa fylgdu honum nokkrir viðskiptavinir í kerfisumsjón, þar á meðal Samherji og Háskólinn á Akureyri, sem báðir eru nú á meðal dyggustu viðskiptavina okkar.

Nýtt fyrirtæki skapar sér markað

Keyptur var A3 prentari, auglýsingar útbúnar og prentaðar og dreift um bæinn. Róbert var meðal annars stoppaður af þegar auglýsingin var komin í skóla bæjarins, stjórnendum þar þótti ekki við hæfi að ýta undir tölvuleikjaspilun hjá nemendum.

Samið var við Opin kerfi og Tæknival um umboðssölu fyrir HP vörur, Fujitsu-Siemens og Epson. Þegar verslunin opnaði var áhyggjuefni í fyrstu að of mikið yrði að gera og að einn handskanni myndi ekki duga fyrir slíkan fjölda sem myndi vilja kaupa vörurnar í búðinni. Áhyggjurnar voru þó óþarfar því rólegt var lengi vel en hópur viðskiptavina stækkaði jafnt og þétt enda gæðavörur á góðu verði.

Forritarar bætast í hópinn

Með ráðningu forritara og kerfisstjóra 2004 hófst forritun af krafti. Ljóst var að þörf væri á vefumsjónarkerfi (Wordpress ekki enn orðið til) því viðskiptavinir Stefnu vildu koma vefnum sínum í betra horf.

Kennsla var enn stunduð í tölvuveri Stefnu, þar voru kennarar að vinna í verktöku og því voru það verslunin, kerfisþjónusta, viðgerðarþjónusta og námskeiðshald sem héldu rekstrinum uppi á meðan þróun á vefumsjónarkerfinu fór fram.

Þróun á fleiri vörum og hugbúnaðarlausnum

Þegar Moya, vefumsjónarkerfið okkar, varð til 2004 var okkar eigin vefur sá fyrsti sem nýtti sér það. Áherslan var á að „ef maður kann einfalda Word ritvinnslu og að vafra á netinu þá er hægt að viðhalda vefsíðu í Moya“. Meðal fyrstu vefja í kerfinu á þeim tíma voru Elektro, SBA, Húnavatnshreppur, Sjúkraflutningaskólinn, Slökkvilið Akureyrar, SA Sport og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Í kjölfar reynslunnar af þróun Moya voru þróaðar aðrar lausnir sem svöruðu sértækum þörfum. Þar má nefna Matartorg, sem varð til út frá þörf til að lágmarka handavinnu við bókanir í mötuneyti grunnskóla og Splist sem er kerfi fyrir kannanir.

Breytt eignarhald, hröð uppbygging

Árið 2005 bættust KEA og Þekking við hluthafahóp Stefnu, hugbúnaðardeild Þekkingar fluttist yfir til fyrirtækisins og fluttist Matthías og kerfisrekstur í Þekkingu. Við þessa breytingu var Gandálfur, vefumsjónarkerfi þekkingar fært yfir til Stefnu og vefirnir færðir í Moya. Með þessu var skerpt á þjónustuframboði með áherslu á vefsíðugerð og hugbúnaðarsmíði.

Eftir nokkurn tíma var aukinn áhugi hjá lykilstarfsmönnum Stefnu að eignast aftur fyrirtækið og var leitað til Samvirkni með þá aðgerð. Stefna flutti í kjölfarið í húsnæði Samvirkni og var þar í nokkur ár, við endurskipulagningu nokkru seinna varð fyrirtækið aftur að fullu í eigu starfsfólks.

Starfsemin breiðir úr sér

Í samhengi við aukna þjónustu við viðskiptavini okkar sunnan heiða var opnað útibú í Kópavogi 2012. Þá fór Stefna í nokkurs konar landvinninga þegar tæknistjórinn, Birgir Haraldsson, fluttist búferlum til Svíþjóðar sumarið 2014 og var opnuð starfsstöð í Uppsala í Svíþjóð með tveimur forriturum.

Forritun, sérlausnir, vefir og hönnunarverkefni

Í gegnum árin hefur Stefna tekið að sér viðamikil forritunarverkefni fyrir Bændasamtök Íslands, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið (síðar Matvælaráðuneytið), MAST og CAE Icelandair. Samhliða því hafa að jafnaði verið gefnir út 150 nýir vefir á ári (ýmist glænýir eða uppfærsla á eldri vef). Margir af viðskiptavinur okkar hafa verið í viðskiptum frá fyrstu árunum og fjölmargir í áratug eða meira.


Hjá Stefnu starfa í dag um 40 manns og þjónustum við á sjötta hundrað viðskiptavini með vefsíður, hugbúnaðarþróun, hönnun og ráðgjöf. Nokkrir af viðskiptavinum okkar hafa verið í viðskiptum frá fyrstu árunum og fjölmargir í áratug eða meira. Alla tíð hefur lág starfsmannavelta og að sama skapi tryggð viðskitpavina einkennt starfsemina, fyrir það erum við óendanlega þakklát!