Te & Kaffi í samstarf við Stefnu

22. mars 2021
Snorri Kr.
Te & Kaffi hafa samið við Stefnu um þróun og innleiðingu á stafrænum lausnum fyrir félagið. Með samningnum er markmiðið að veita viðskiptavinum Te & Kaffi framúrskarandi þjónustu með innleiðingu nýrra og spennandi lausna.

Te & Kaffi hafa verið leiðandi á íslenskum kaffimarkaði síðan 1984 og rekur alls níu kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og starfa þar um 100 manns. Mikil tækifæri felast í stafrænni umbreytingu og því eru miklar vonir bundnar við þetta samstarf.

Rík áhersla hefur verið á þróun nýrra stafrænna lausna hjá Stefnu undanfarin ár. Ber þar helst að nefna sjálfvirkar afgreiðslulausnir, öflugar vefverslunarlausnir, snertilausar greiðslulausnir, app forritun, ásamt sjálfvirkri gjaldtöku fyrir bílastæði svo eitthvað sé nefnt.

Öll verkefnin eiga það sameiginlegt að nýta til fulls sjálfvirknivæðingu, efla skilvirkni, bæta þjónustu og styrkja þannig ímynd ásamt því að stuðla að aukinni sölu.

Vinnustofa Te & Kaffi og Stefna

Við hjá Stefnu erum virkilega spennt fyrir þessu verkefni og hlökkum til öflugs samstarfs með Te & Kaffi. Okkar markmið er að þróa og innleiða lausnir sem sniðnar eru að þeirra starfsemi og gera um leið fleirum kleift að njóta þeirra framúrskarandi vöru- og þjónustuframboðs.